Sá ekki vegfarandann fyrr en eftir áreksturinn

Yfirlitsmynd af slysstað sem sýnir merkta leið gangandi vegfarandans með …
Yfirlitsmynd af slysstað sem sýnir merkta leið gangandi vegfarandans með gulum punktum og bifreiðarinnar með breiðum strikum. Á myndinni sjást einnig rangar akbrautarmerkingar. Tölvuteiknuð mynd/Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur skilað af sér skýrslu um banaslys sem varð árið 2022 þegar ekið var á gangandi vegfara á Strandgötu á Akureyri.

Meginorsök slyssins er talin sú að ökumaður gætti ekki að umferð gangandi vegfaranda.

Þá kemur fram að myndbandsupptökur sýni að ökumaðurinn hafi ekki séð gangandi vegfaranda áður en áreksturinn varð.

Þá var færsla gatnamóta og merkingar ekki fullnægjandi, öryggisáætlun vantaði fyrir framkvæmdir við veg og ekki er að sjá að ökumaður hafi notað stefnuljós.

Þann 9. ágúst 2022 var ekið á karlmann með þeim …
Þann 9. ágúst 2022 var ekið á karlmann með þeim afleiðingum að hann lést. mbl.is

Lést daginn eftir slysið

Þann 9. ágúst 2022 var 74 ára gamall karlmaður á leið eftir gönguleið á Hofsbót og til hægri inn á mið gatnamót Strandgötu og Hofsbótar. Á sama tíma var Mercedes Benz fólksbifreið ekið Strandgötu og í vinstri beygju inn á Hofsbót til suðausturs.

Karlmaðurinn varð fyrir bifreiðinni á miðjum gatnamótunum og slasaðist alvarlega við áreksturinn. Hann lést daginn eftir á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ökumaðurinn kvaðst ekki hafa orðið var við gangandi vegfarandann fyrr en árekstur varð en taldi sig þá hafa ekið upp á kantstein umferðareyjunnar og ekki áttað sig á atvikinu fyrr en hann hafi litið til vinstri og séð vegfarandann falla í götuna.

Sá ekki vegfarandann fyrr en eftir áreksturinn

Þrátt fyrir að meginorsök slyssins sé sú að maðurinn hafi ekki gætt að umferð gangandi vegfarenda þá koma einnig fram aðrar útskýringar. Þá er sérstaklega nefnt takmarkað útsýni ökumannsins út úr bifreiðinni.

Af sviðsetningu lögreglunnar má ætla að gangandi vegfarandinn hafi verið í blinda svæði A-póstsins á leið bifreiðarinnar í vinstri beygju. Ökumaður Mercedes Benz-bifreiðarinnar kvaðst ekki hafa séð gangandi vegfarandann áður en árekstur varð og styðja upptökur úr öryggismyndavélum það.

„Af sviðsetningu lögreglunnar má ætla að gangandi vegfarandinn hafi verið í blinda svæði A-póstsins á leið bifreiðarinnar í vinstri beygju. Ökumaður Mercedes Benz-bifreiðarinnar kvaðst ekki hafa séð gangandi vegfarandann áður en árekstur varð og styðja upptökur úr öryggismyndavélum það,“ segir í skýrslunni.

Merkingar voru ekki fullnægjandi

Þá kemur einnig fram að gangandi vegfarandi hafi gengið af merktri gönguleið frá suðurhorni gatnamótanna skáhallt til norður inn að miðju gatnamóta Strandgötu og Hofsbótar.

„Þegar vegfarandinn var kominn inn á eystri akrein Strandgötu á gatnamótunum var hann staðsettur í akstursstefnu bifreiðarinnar sem var í vinstri beygju af Strandgötu inn á Hofsbót,“ segir í skýrslunni.

Færsla gatnamóta og merkingar voru heldur ekki fullnægjandi.

„Aðgreining gangandi og akandi umferðar við byggingarframkvæmdir voru götumerktar með óbrotnum línum og engin hindrun eða vörn var fyrir óvarða gangandi vegfarendur við gatnamótin.

Ekki var gert ráð fyrir að gangandi vegfarendur þveruðu Hofsbót við gatnamótin sem takmarkaði leiðarval gangandi vegfarenda við sunnanverða Hofsbót. Rangar merkingar voru á akbraut Hofsbótar sem gátu gefið til kynna að einstefna væri á Hofsbót til norðvesturs,“ segir í skýrslunni.

Beina tillögum að Akureyrarbæ

Rannsóknarnefnd samgönguslysa gefur að lokum tillögur til að bæta öryggi og er þeim beint að Akureyrarbæ. Mælt er með að merkingar og aðgengi vegfarenda verði bætt við vinnusvæði Hofsbótar 2, þar sem slysið varð.

Þá er einnig beint þeirri tillögu til Akureyrarbæjar að þegar framkvæmdir hafa áhrif á umferð gangandi og eða akandi sé fylgt eftir að unnin sé öryggisáætlun og skipaður eftirlitsmaður í samræmi við reglugerð þess efnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert