Býst við því að bæta hressilega við sig fylgi

Jón Gnarr er spenntur fyrir komandi kosningabaráttu.
Jón Gnarr er spenntur fyrir komandi kosningabaráttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta bara alveg frábært. Svo á ég bara eftir að bæta hressilega við mig þegar allt fer í gang býst ég við,“ segir Jón Gnarr inntur eftir viðbrögðum við nýjustu könnun Pró­sent fyrir Morg­un­blaðið.

Þá segir hann taktík sína vera að ná ekki toppnum of snemma í kosningabaráttunni

Samkvæmt könnun Prósents er Jón Gnarr með 16,8% fylgi. Hann mælist með þriðja mesta fylgið á eftir Baldri Þórhallssyni, með 25,8% fylgi, og Katrínu Jakobsdóttur, með 22,1% fylgi. Ekki er marktækur munur á fylgi Baldurs og Katrínar.  

Framboð hans ólíkt stóru framboðunum

Jón telur framboð sitt skera sig úr að því leyti að það sé meira sjálfsprottið og fjarri lagi jafn gríðarlega vel skipulagt og framboð Katrínar og Baldurs. Hann telur nokkuð augljóst að þau framboð hafi verið mikið skipulögð áður en þau voru kynnt. 

„Það krefst mannafla, tíma og fjármagns. Það má því kannski segja að ég sé svolítið eftir á með mitt framboð,“ segir Jón og bætir við að hann hafi ekki úr því að moða.

Hann er þó langt frá því að vera stressaður og segist hafa verið í svipaðri stöðu áður þegar hann var í framboði fyrir Besta flokkinn, sem bauð fram í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um 2010.

Hann kveðst þá hafa verið í baráttu við vel þjálfaðar kosningavélar, á meðan Besti flokkurinn var sjálfsprottin fjöldahreyfing. 

„Ég hef fulla trú á því að þegar ég fer að láta í mér heyra og vekja meiri athygli á mér muni ég eiga möguleika á að jafna metin við Baldur og Katrínu.“

Kosningateymið í sjálfboðavinnu

Síðustu daga hafa einkennst af skipulagsvinnu hjá kosningateyminu og því að safna peningum frá fólki sem vilji styðja og styrkja framboðið segir Jón. Síðan taki við ákvarðanir um hvernig þessum peningum verði eytt.

Einhver óvænt útspil eru í kortunum hjá honum sem munu svipa til kosningabaráttu Besta flokksins en kosningateymi Jóns byggir að miklu leyti á fólki sem var með honum í Besta flokknum.

„Þannig við erum með ýmislegt uppi í erminni. Þetta er meira organískt framboð en mörg önnur framboð, eins og þessi stóru framboð Katrínar og Baldurs, þar sem er fjöldi fagfólks að vinna.“

Þá segir hann kosningateymi sitt byggjast að mestu á fólki í sjálfboðavinnu sem vinnur að framboðinu í aukavinnu. 

Sækir landið heim

Jón sjálfur hefur ekki tök á að taka sér frí frá vinnu og segir að kosningabaráttan krefjist því mikils skipulags. Hann stefnir á að sækja landið heim í áföngum samhliða vinnu og á frídögum. 

Spurður hvernig kosningabaráttan hafi farið af stað segist Jón hafa verið að fara hingað og þangað að kynna sitt mál. Þá kveðst hann vera spenntur, hress og hlakka til komandi baráttu.

„Ég held að allir geti verið sammála um það að þetta verður kosningaveisla og vonandi verður bara allt á léttum og góðum nótum, engin leiðindi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert