„Verða allar stórar hátíðir að vera í Hörpu?“

Jónína segir það skjóta skökku við að hægt sé að …
Jónína segir það skjóta skökku við að hægt sé að ferja starfsmenn með innanlandsflugi til Reykjavíkur ár eftir ár en að það sé óhugsandi að starfsmenn í Reykjavík geri hið sama. Samsett mynd

„Fordómar eru oft duldir og stundum þarf bara að benda á það því fólk kannski áttar sig bara ekki á því,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings. Hún segir ekkert óeðlilegt við að árshátíð Landsvirkjunar hafi verið haldin á Egilsstöðum.

„Landsvirkjun er með virkjanir út um allt land. Það er ekki ein af þeim í Reykjavík. Landsvirkjun framleiðir samt megnið af rafmagninu sínu fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir Jónína. 

Hún segir það því skjóta afskaplega skökku við að hægt sé að ferja starfsmenn með innanlandsflugi til Reykjavíkur ár eftir ár en að það sé óhugsandi að starfsmenn í Reykjavík geri slíkt hið sama á landsbyggðina.

Sjálfhverfan á höfuðborgarsvæðinu mikil

„Ég get ekki skilið að það sé eitthvað slæmt. Af hverju mega fyrirtæki og þjónustuaðilar hér ekki njóta góðs af því að starfsmenn fyrirtækisins séu hér? Eiga allir að versla í miðbæ Reykjavíkur og í Kringlunni? Verða allar stórar hátíðir að vera í Hörpu eða á Hótel Hilton?“

„Sjálfhverfan á höfuðborgarsvæðinu er orðin svo mikil að um leið og einhver þarf að fara út á land þá er eins og það sé meiriháttar glæpur,“ segir Jónína. 

Kveðst hún vona að gagnrýni á árshátíðina sé hugsunarleysi í garð íbúa og starfsfólks á landsbyggðinni frekar en beinskeittir fordómar. Íbúum landsbyggðarinnar þyki þau oft ekki eiga pláss við borðið í umræðunni sem taki oftar en ekki einungis mið af höfuðborgarsvæðinu, líkt og í þessu tilfelli.

Fjármagnið beint inn í virðiskeðju Egilsstaða

Henni þyki það sjálfssagt að árshátíð Landsvirkjunnar, sem og annarra fyrirtækja, geti verið haldin úti á landi. Með því sé Landsvirkjun að standa við sín gildi um að vera góður granni gangvart bæjarfélögunum í nágrenni við virkjanir þeirra.

Í því felist ekki óhóflegur kostnaður að hennar mati heldur fari fjármagnið þvert á móti beint inn í virðiskeðjuna á tilteknum stað.

Það kunni vel að vera að það hafi verið dýrara að halda árshátíðina á Egilsstöðum en að sögn Jónínu skiptir það máli að með þessu sé verið að versla innanlands, við íslenska ferðaþjónustuaðila, inni á stóru starfsvæði Landsvirkjunnar. 

„Það er bara dýrt að eiga fyrirtæki úti á landi og það er bara dýrara að halda árshátíð úti á landi.“

Facebook-færslu Jónínu um málið má lesa hér fyrir neðan:mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert