Vilja fjölga ferðum í gegnum Loftbrú

Skrúfuþota Ernis sem hefur oft verið notuð í flug til …
Skrúfuþota Ernis sem hefur oft verið notuð í flug til og frá Húsavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Stjórn og trúnaðarráð stéttarfélagsins Framsýn á Húsavík vill að fjölgað verði þeim ferðum sem íbúar landsbyggðarinnar geta keypt í gegnum svokallaða Loftbrú. 

Áætlunarflugi til Húsavíkur var hætt 1. apríl og segir í ályktun Framsýnar að það hafi verið mikið áfall fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum. 

Loftbrú var kynnt árið 2020 og veitir hún íbúm á landsbyggðinni 40% afslátt af flugferðum innanlands til Reykjavíkur. Geta íbúar nýtt afsláttinn til kaupa á alls sex flugferðum á ári. 

„Í ljósi þess hvað flugsamgöngur eru mikilvægar landsmönnum telur Framsýn jafnframt brýnt að afsláttarferðum í gegnum Loftbrúna verði fjölgað, ekki síst þegar horft er til þess að láglaunafólk sem þarf að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið hefur ekki efni á því að fljúga innanlands vegna kostnaðar. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að búsetuskilyrði í landinu verði jöfnuð,“ segir í ályktun Framsýnar. 

Áhyggjur af framtíð sjúkraflugs

Stjórn og trúnaðarráð skorar á Vegagerðina að tryggja áætlunarflug til Húsavíkur með sambærilegum hætti og er í dag til smærri áfangastaða.

Segir í ályktuninni að flugsamgöngur séu ekki síst mikilvægar fyrir alla sem þurfa að ferðast milli landshluta vegna veikinda, vinnu eða annarra brýnna erinda. 

„Því miður virðist sem það skorti pólitískan vilja til að halda uppi áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem er verulega miður.

Framsýn treystir því að nýr innviðaráðherra taki á málinu og komi að því að bæta úr þessu neyðarástandi. Þá óttast Framsýn að sjúkraflug um Húsavíkurflugvöll sé í mikilli hættu, verði dregið úr þjónustu við völlinn,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert