Magni kaupmaður látinn

Magni R. Magnússon er látinn 88 ára að aldri.
Magni R. Magnússon er látinn 88 ára að aldri. Ljósmynd/Árni Torfason

Magni Reynir Magnússon kaupmaður lést á Landspítalanum 16. apríl, 88 ára að aldri.

Margir minnast Magna úr Frímerkjastöðinni við Skólavörðustíg og versluninni Hjá Magna sem stóð við Laugaveg 15, sem var annað heimili frímerkja- og myntsafnara auk spilara.

Greint var frá andlátinu á Vísi.

Magni R. Magnússon og Steinunn Guðlaugsdóttir.
Magni R. Magnússon og Steinunn Guðlaugsdóttir. mbl.is/Golli

Hjá Magna og Frímerkjastöðin

Magni, sem var tíður viðmælandi Morgunblaðsins, var fæddur og uppalinn í Reykjavík. Eftir próf hjá Samvinnuskólanum hóf hann störf hjá Loftleiðum og síðar hjá Landsbankanum.

Magni og eiginkona hans Steinunn Guðlaugsdóttir giftu sig á Eyrarbakka 11. júlí 1964.

Hann stofnaði verslunina Frímerkjastöðina á Skólavörðustíg ásamt tveimur vinum sínum sama ár, og ráku þeir verslunina saman til ársins 1979.

Magni og Steinunn opnuðu síðar verslunina Hjá Magna. Stóð hún opin til ársins 2005.

Hlýr og hjartagóður

Magni lætur eftir sig eiginkonu og þrjú uppkomin börn, þau Oddnýju Elínu, Guðmund Hauk og Ingibjörgu, ásamt barnabörnum og barnabarnabörnum.

Í 80 ára afmælisgrein Magna sem birtist í Morgunblaðinu árið 2015 er honum lýst sem einstökum manni, hlýjum og hjartagóðum með dásamlegan húmor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert