Alltaf jafn skemmtilegt

Feðgarnir Magni R. Magnússon og Guðmundur H. Magnason eiga margar …
Feðgarnir Magni R. Magnússon og Guðmundur H. Magnason eiga margar góðar minningar um spilið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Feðgarnir Magni R. Magnússon, fyrrverandi kaupmaður í Frímerkjamiðstöðinni og síðan í verslunni Hjá Magna, og Guðmundur H. Magnason, framkvæmdastjóri hjá Heimkaup.is, eiga ýmislegt sameiginlegt. Eitt er óstjórnlegur áhugi á borðspili, sem Magni seldi í bílförmum eftir að það kom út fyrir rúmum fjórum áratugum og Heimkaup.is hóf forsölu á í liðinni viku.

Haukur Halldórsson myndlistarmaður hannaði spilið sem kom á markað 1977 og naut strax mikilla vinsælda. „Búðin mín á Laugaveginum var svo lítil að hún var full þegar fjórir voru komnir inn og þá biðu menn á tröppunum fyrir utan,“ rifjar Magni upp. „Þá fór fólk að velta fyrir sér af hverju þarna væri svona mikil ös, en tilfellið er að Útvegsspilið var mjög vinsælt, ég seldi óhemju mörg spil og það var víða spilað allan sólarhringinn.“

Magni segist ekki hafa haft tíma til að spila mikið sjálfur, en í gluggalausu herbergi á heimilinu hafi strákarnir, Guðmundur og vinir hans, spilað það heilu og hálfu sólarhringana.

Spilið væntanlegt í september

Spilaborg hefur ákveðið að endurútgefa spilið í samstarfi við höfundinn og er það væntanlegt á markað 1. september. „Spilið hefur ekki verið til sölu í verslunum í mörg ár en gömul og notuð eintök í góðu standi hafa selst fyrir háar upphæðir á netinu,“ segir Guðmundur. „Ég þekki Útvegsspilið afskaplega vel og uppveðraðist allur þegar Stefán Sigurjónsson, framkvæmastjóri Spilaborgar, hringdi og ég samdi við hann um að selja það í forsölu.“ Hann segir skemmtilegt að upphaflega útgáfan verði aftur á boðstólum, ekki síst vegna þess að allt í sambandi við hana sé íslenskt. „Upplagið er takmarkað og þó spilið verði hugsanlega gefið aftur út síðar verður það ekki í þessari útgáfu.“

Forsala á spilum hefur ekki verið algeng hjá heimkaup.is, en Guðmundur segir að honum hafi þótt gráupplagt að fara þessa leið. Samstarfsmennirnir hafi ekki allir verið eins ákafir og hann. „Það var því sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig forsalan fór af stað, en 500 stykki seldust fyrsta sólarhringinn og aðeins verða gefin út 5.000 eintök. Ekki kemur mér á óvart ef spilið verður uppselt áður en það kemur út.“

Stundum er sagt að lífið fari í hringi og Guðmundur upplifir það í sambandi við spilið sem hann er nýbyrjaður að selja. „Ég ólst að miklu leyti upp í búðinni hjá pabba og pakkaði inn ótöldum Útvegsspilum. „Það var mikil pappírseyðsla fyrir jólin, því þá pökkuðum við vörunum inn í sérstakan jólapappír,“ skýtur Magni inn í.

„Ég féll algerlega fyrir spilinu,“ heldur Guðmundur áfram. „Í minningunni voru allir þessir peningar svo skemmtilegir, að kaupa báta og taka áhættu.“ Hann gleymir sér í upprifjuninni og er allt í einu kominn á kaf í útgerðina, farinn að velta fyrir sér fiskimiðum, aflabrögðum og vinnslunni. „Þetta er stórskemmtilegt spil og ég bíð spenntur eftir að fá það aftur en pakkinn minn týndist í einhverjum flutningunum nema ég hafi lánað spilið og ekki fengið það aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert