Ók á aðra bifreið, tré og endaði á húsvegg

Frá umferðaróhappinu þegar bíllinn endaði á húsvegg.
Frá umferðaróhappinu þegar bíllinn endaði á húsvegg. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Tilkynnt var um umferðaróhapp á Laugaveginum í gærkvöldi. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hann ók á aðra bifreið, tré og að lokum á húsvegg. Engin slys urðu á fólki en tjónið var töluvert.

Tveir á slysadeild eftir hópslagsmál

Lögreglunni barst einnig tilkynning um hópslagsmál í miðbæ Reykjavíkur. Flytja þurfti tvo á slysadeild til aðhlynningar. Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Ógnuðu vegfarendum

Tilkynning barst um tvo menn til ama í hverfi 220 í Hafnarfirði. Þeir höfðu meðal annars verið að ógna vegfarendum. Mennirnir fundust og voru þá búnir að róta í bifreið. Þeir voru handteknir og fluttir á lögreglustöð.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hnupluðu úr söfnunargámum

Umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um tvo einstaklinga að hnupla úr söfnunargámum. Þeir fundust í bifreið skammt frá. Málið er í rannsókn.

Einn var handtekinn grunaður um vopnalagabrot ásamt sölu og dreifingu fíkniefna og er það mál einnig í rannsókn.

Tilkynnt var um umferðaróhapp í hverfi 104 í Reykjavík. Sá sem olli tjóninu reyndist hafa verið ölvaður við akstur. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert