„Óþarfi að vera á svona miklum hraða í þéttbýli“

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir er formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar.
Guðbjörg Oddný Jónasdóttir er formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun um að lækka umferðarhraða víða í Hafnarfirði var tekin með það í huga að auka umferðaröryggi, sérstaklega þeirra sem eru gangandi og hjólandi. Breytingin mun draga úr umferðarslysum, loftmengun og stuðla að betra umferðarflæði. Þetta segir Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is.

Í síðasta mánuði ákvað bærinn að lækka hámarkshraða á 66 stöðum í bæjarfélaginu úr 50 km/klst niður í 40 og 30 km/klst. Er það í samræmi við svipaða endurskoðun og hefur átt sér stað í Kópavogi og í Reykjavík að undanförnu.

„Eykur öryggi gangandi vegfarenda

„Það er jákvætt að lækka umferðarhraða í þéttbýli því það eykur öryggi gangandi vegfarenda. Við erum búin að skoða þetta mjög vel og hugsa þetta og það er stuðst við úttekt sérfræðinga um þróun slysa,“ segir Guðbjörg.

Samhliða þessum breytingum segir Guðbjörg mikilvægt að ráðist verði í ýmiskonar úrbætur þar sem flest slys hafa verið í bænum undanfarin ár. Þar er meðal annars horft til hraðahindrana, að setja upp skilti víðsvegar og að breyta ljósastýringum umferðaljósa.

Önnur hugsun eftir að hafa eignast börn

„Það er óþarfi að vera á svona miklum hraða í þéttbýli, þetta er til bóta og dregur úr umferðarslysum, loftmengun og stuðlar að betra umferðarflæði,“ segir Guðbjörg spurð um hvað liggi að baki breytinganna.

Hún segir þetta ekki síður gert til að vernda elstu og yngstu vegfarendurnar, en sjálf segir hún að vitund hennar um þennan málflokk hafi breyst eftir að hún eignaðist börn. „Á persónulegu nótunum finnst mér þetta mjög gott því ég er með þrjú börn og maður fer að hugsa allt öðruvísi um umhverfið þegar maður er með lítil börn að hjóla og labba. 50 er of mikið í mörgum götum.“

Lækka á hámarkshraða víða í Hafnarfirði úr 50 km/klst niður …
Lækka á hámarkshraða víða í Hafnarfirði úr 50 km/klst niður í 30 eða 40 km/klst mbl.is/Arnþór

Samstíga ákvörðun allra í bæjarstjórn

Vísar Guðbjörg til rannsókna um stigvaxandi afleiðingar af umferðaróhöppum eftir því sem hraði bifreiða eykst. Með lægri hámarkshraða sé hægt ná bæði markmiðum um að fækka slysum og að afleiðingar þeirra verði ekki jafn alvarlegar.

Guðbjörg segir þetta hafa verið samstíga ákvörðun allra í bæjarstjórn og umhverfis- og framkvæmdaráði og að vinnan hafi tekið um tvö ár þar sem leitað var umsagnar frá lögreglu, Strætó og fleirum. Breytingin mun að hennar sögn taka gildi þegar auglýsing þess efnis hefur verið birt í Stjórnartíðindum á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert