„Margt hefur nú ekki beinlínis verið til fyrirmyndar“

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og fyrrverandi matvælaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og fyrrverandi matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra og fyrrverandi matvælaráðherra, segir algjöran samhljóm vera um að kerfið í kringum lagareldi hafa verið óskýrt. Þar hafi verið ómarkvissir ferlar sem varða leyfisveitingu og stjórnsýslan ekki verið til fyrirmyndar.

Þetta kom fram í máli hennar þegar hún svaraði óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Siglingaöryggi þurft að víkja fyrir sjókvíum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, spurði Svandísi út í leyfisveitingar vegna sjókvíaeldis. Sagði hún að siglingaöryggi hefði mátt víkja fyrir kvíunum þrátt fyrir að Vegagerðin, Landhelgisgæslan og Samgöngustofa beri ábyrgð á siglingaöryggi, en Þórhildur sagði það öryggi hafa þurft að víkja þegar leyft var að setja kvíar á stöðum sem skyggja á ljósgeisla frá vitum.

Rifjaði Þórhildur einnig upp slysasleppingu í fyrra og sagði ljóst að áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar hafi ekki verið fullnægjandi og nýtt mat þyrfti að gera.

Sagði hún þessi dæmi sýna sofandahátt og vanhæfi stjórnsýslunnar, en að afsökunin væri jafnvel að verið væri að bjarga brothættum byggðum og þá væri afsláttur af lögum og reglum gefinn svo fórna mætti hagsmunum náttúru og framtíðarkynslóða.

Spurði hún ráðherra hvort strandsvæðaskipulag væri ekki í uppnámi þar sem skipulag kvíanna standist ekki siglingalög, vitalög, fiskeldislög, fjarskiptalög, byggingarlög eða lög um umhverfismat.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Samhljómur um óskýrt kerfi og ómarkvissa ferla

„Það hefur sannarlega verið svo, eins og kemur fram í fyrirspurn háttvirts þingmanns, að margt hefur nú ekki beinlínis verið til fyrirmyndar í utanumhaldi lagareldis við Ísland,“ svaraði Svandís og sagði að ráðist hafi verið í úttekt bæði Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group. Þar hafi verið óskað eftir mögulegri framtíðarsýn fyrir lagareldi á öllum sviðum.

„Það má eiginlega segja að það hafi verið alger samhljómur í þeirri vinnu sem þarna var innt af hendi, þ.e. að kerfið væri óskýrt, það væru ómarkvissir ferlar að því er varðar leyfisveitingar, stjórnsýslan væri ekki til fyrirmyndar o.s.frv., sem varð allt saman til þess að rétt þótti að fara að ábendingum Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group í því að leggja grunn að nýrri heildarlöggjöf um lagareldi,“ sagði Svandís, en slíkt frumvarp er væntanlegt fyrir þingið í vikunni.

Fyrr í fyrirspurnartímanum hafði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnt frumvarpið og sagði það gefa eldisfyrirtækjunum auðlindir þjóðarinnar.

Sagði Svandís mikið umhugsunarefni hvernig skilvirkast væri að tryggja þetta leyfisveitingaferli þannig að það væri í góðu jafnvægi við bæði samfélag og umhverfi. Hún hafnaði því hins vegar að um væri að ræða birtingarmynd hugmyndaleysis í byggðamálum eins og Þórhildur hafði haldið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert