Ísland í öðru sæti á Regnbogakorti

Samtökin '78, segja það sannarlega gleðiefni hve Regnbogakortið lýsir miklum …
Samtökin '78, segja það sannarlega gleðiefni hve Regnbogakortið lýsir miklum árangri í málefnum hinsegin fólks hér á landi. mbl.is/Eyþór

Ísland er í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA- Europe sem mælir lagalega réttindastöðu hinsegin fólks í 49 löndum Evrópu og Mið-Asíu. 

Ísland einn af hástökkvurum kortsins í ár, fer upp í annað sæti úr því fimmta og uppfyllir nú 83% af þeim viðmiðum sem ILGA-Europe setur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökunum '78, en Regnbogakortið má skoða hér

Yfir lengri tíma litið má jafnframt sjá mikla breytingu því fyrir einungis sjö árum sat Ísland í 17. sæti kortsins og uppfyllti aðeins 47% viðmiðanna. 

Fagna jákvæðum breytingum á Íslandi 

Í tilkynningunni er farið yfir jákvæðar breytingar á Íslandi og tekið sem dæmi að um síðustu áramót hafi tekið í gildi lög um bann við bælingarmeðferð. Eins hafi þau teymi heilbrigðiskerfisins sem þjónusta transfólk bætt áætlanir og þjónustu sína í samræmi við lög um kynrænt sjálfræði, sem enn er verið að innleiða í reglugerðir og áætlanir.

Þá er því jafnframt fagnað að breytur sem tengjast hinseginleikanum þ.e. kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni hafi verið bætt við 70. gr. almennra hegningarlaga sem varðar þætti sem hafa áhrif á refsihæð glæpa. 

Býr víða við ólgu, óvissu og óöryggi 

„Það er sannarlega gleðiefni hve Regnbogakortið lýsir miklum árangri í málefnum hinsegin fólks hér á landi. En á meðan við fögnum árangrinum hér á Íslandi býr hinsegin fólk í víða í Evrópu og Mið-Asíu enn við mikla ólgu, óvissu og óöryggi. Pólitískur ágreiningur um réttarstöðu hinsegin fólks hefur orðið til þess að lönd detta niður listann eða standa í stað,“ segir í tilkynningunni. 

Því næst er það útskýrt að í sumum landanna megi rekja umrætt fall til þess skipulagða áróðurs sem beitt hefur verið gegn transfólki. Sums staðar sé slíkum áróðri og hinsegin réttindum almennt beitt sem pólitísku vopni af stjórnmálafólki og stjórnmálaflokkum.

„Það er rétt að minnast þess að svo grafalvarleg staða er ekki bara uppi í löndum fjarri og ólíkum Íslandi, heldur til dæmis í nágrannalöndum eins og Bretlandi sem hefur fallið hratt niður Regnbogakortið undanfarin ár. Þegar litið er til hinna Norðurlandanna þá falla þau öll niður listann þar sem ekki var unnt að endurskrifa aðgerðaráætlanir í málaflokknum. Það er því mikilvægt að muna að baráttan fyrir lagalegum réttindum hinsegin fólks er síður en svo unnin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert