Mun ekki tala um „Norðfólk“ í stað „Norðmanna“

Lilja mun funda með RÚV til að fara yfir kynhlutlaust …
Lilja mun funda með RÚV til að fara yfir kynhlutlaust málfar. mbl.is/Eyþór

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun eiga fund með Ríkisútvarpinu (RÚV) á næstu dögum til að fara yfir kynhlutlaust málfar sem stofnunin hefur af sumum verið gagnrýnd fyrir að leyfa notkun á.

„Það sem ég er að gera er að kynna mér hvernig RÚV er að nálgast þetta. Það er til að mynda, í núverandi málstefnu RÚV, ekki fjallað um kynhlutlausa málið,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Í þjónustusamning RÚV við ríkið fyrir árin 2024-2027 kemur fram að málstefna RÚV skuli endurskoðuð á samningstímanum.

„Mér finnst mjög viðeigandi að það sé samtal sem á sér stað í samfélaginu um stórar breytingar sem gætu átt sér stað,“ segir hún.

Mikilvægt að vernda tungumálið

Hún nefnir að íslenskufræðingar deili um kynhlutlausa málið og möguleg áhrif þess. Nefnir hún til dæmis að Höskuldur Þráinsson segi þetta geta haft áhrif á málþroska barna. Hins vegar hafi Eiríkur Rögnvaldsson haft uppi önnur sjónarmið.

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að vernda tungumálið okkar en á sama tíma að við séum í sókn fyrir það. Ég hef talað um að það er mikið álag á tungumálinu okkar þessa dagana. Bæði frá tæknirisunum í gegnum margar leiðir sem hægt er að nálgast afþreyingarefni á ensku, allt frá níu mánaða gömlu barni, og það er auðvitað að hafa áhrif á máltöku og málskilning barna.

Svo í öðru lagi þá erum við með mjög breytt samfélag, miklu fleiri innflytjendur, og við eigum að einblína á það að koma íslenskunni að sem víðast og hafa hana aðgengilegri. Mér finnst ekki að þetta sé það brýnasta sem við erum að einblína á þessa dagana. Alþingi hefur samþykkt metnaðarfulla áætlun um íslenska tungu og það er mjög brýnt að hrinda henni til framkvæmdar sem fyrst,“ segir hún.

Hún segir þó að það sé þannig að tungumál þróist.

Getur ekki átt sér stað án samtals við samfélagið

Ert þú sammála því að það sé notað kynhlutlaust mál í fréttum Ríkisútvarpsins. Vilt þú að það sé þannig?

„Ég vil að það sé hugað að málinu okkar á þann hátt að við séum að vernda það og að áður en það er tekin svona ákvörðun þá þarf að ráðfæra sig við skólakerfið okkar. Það þarf að eiga sér stað skoðun hjá málnefndinni, íslenskufræðingum og öðru slíku. Þetta getur ekki átt sér stað, að mínu mati, án þess að það sé samtal við samfélagið.“

Íslenskan margslungin

Notar þú kynhlutlaust mál?

„Ef þú ætlar að hverfa frá kynhlutleysi málfræðilega karlkynsins, sem er hluti af íslenska málkerfinu og er út um allt, þá þarf að eiga sér stað mun ítarlegra samtal meðal þjóðarinnar. Þú getur notað það, kynhlutlaust mál, að einhverju leyti án þess að fara alla leið. Ef þú ætlar að breyta því alfarið þá er bara svo mikil breyting sem á sér stað á málkerfinu okkar. Það er það sem ég og margir hafa áhyggjur af,“ segir hún en útskýrir að íslenskan sé margslungin.

Hún talar til dæmis um „tónlistarfólk“ en „Norðmenn“.

„Ætla ég að fara tala um „Norðfólk“ í staðin fyrir „Norðmenn“? Nei ég er ekki að fara gera það. En ætla ég að tala um „tónlistarfólk“? Já.“

Ekki að skipta sér af skrifum blaðamanna

Spurð hvort að hún sé með þessu að skipta sér af skrifum blaðamanna segir Lilja að hún sé ekki að gera það.

„Það er verið að spyrja út í málstefnu Ríkisútvarpsins á Alþingi. Ég þarf að átta mig á því hvað er að gerast varðandi málstefnu RÚV og mér finnst eðlilegt að ég geti svarað spurningum sem er beint að mér á Alþingi Íslendinga. Ég hef ekki upplýsingarnar án þess að ég leiti þeirra. Þetta er bara lykilatriði,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert