Spá því að umbrotunum ljúki í júlí

Haraldur segir að stöðugt hafi dregið úr hraunrennsli frá því …
Haraldur segir að stöðugt hafi dregið úr hraunrennsli frá því í kvikuhlaupinu í nóvember 2023 þegar það var um 750.000 rúmmetrar á dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Har­ald­ur Sig­urðsson eld­fjalla­fræðing­ur og Grím­ur Björns­son jarðeðlis­fræðing­ur spá goslokum í Sundhnúkagígaröðinni í júlí. Þetta kemur fram í bloggi Haraldar í kvöld.

Hann telur líklegt að við hvert eldgos í Sundhnúkagígaröðinni storkni kvika þegar hún komi í snertingu við kalt berg yst á kvikuganginum. Þá myndist lóðrétt 5-10 sentímetra þykk skán af storknu basalti. 

Kvikugangurinn undir Sundhnúkagígaröðinni hafi eflaust þrengst smátt og smátt eftir hvert gos. Þannig dragi óhjákvæmilega úr rennsli upp á yfirborðið.

Þessu til stuðnings vitnar Haraldur í gögn Veðurstofu Íslands. Hann segir að í kvikuhlaupinu í nóvember 2023 hafi hraunrennsli verið um 750.000 rúmmetrar á dag. Stöðugt hafi dregið úr því og hafi verið 250.000 rúmmetrar á dag í síðasta kvikuhlaupi.

Aðfærsluæðin þrengist stöðugt

„Kólnun og storknun kviku á jöðrum gangsins er stöðugt að þrengja aðfærsluæðina og mun að lokum stöðva virknina undir Sundhnúksgígaröðinni. Út frá slíkum gögnum höfum við Grímur Björnsson því spáð goslokum í byrjun júlí í ár,“ segir í færslu Haraldar.

Þetta velti þó allt á því hversu hratt kvikan í ganginum kólni og storkni. Það fari aðallega eftir þykkt kvikugangsins, sem sé því miður óþekkt stærð í Sundhnúk, að sögn Haraldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert