Búast við eldgosi hvenær sem er

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. Samsett mynd

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að áfram sé búist við eldgosi hvenær sem er.

„Landrisið heldur áfram á sama hraða, skjálftavirknin er viðvarandi og það hafa safnast yfir 17 milljónir rúmmetra af kviku í kvikugeyminn undir Svartsengi,“ segir Benedikt við mbl.is þegar hann er spurður út í stöðu mála á Reykjanesskaganum.

Benedikt segir að staðan breytist lítið frá degi til dags en áfram sé búist við því að eitthvað gerist. Hann segir að það verði svo að bara koma í ljós hversu hlutirnir þurfi að ganga miklu lengra áður en það dragi til tíðinda.

„Jörðin gerir ekki eins og við endilega viljum“

„Gosið lætur bíða eftir sér og kannski verðum við að sætta okkur við það að jörðin gerir ekki eins og við endilega viljum,“ segir Benedikt en allt frá því að síðasta gosi lauk 9. maí hafa menn beðið eftir enn einu gosinu við Sundhnúkagígaröðina sem vísindamenn telja langlíklegasta gosstaðinn.

Spurður hvort hann meti það svo að það sé erfiðara fyrir kvikuna að komast upp á yfirborðið segir Benedikt:

„Já það er sú ályktun sem við drögum. Við höfum séð merki um að það er eins og eitthvað hafi verið í bígerð fyrr í þessum mánuði en svo stöðvaðist það. Skjálftavirknin hefur verið nokkuð viðvarandi og alltaf á þessum sömu stöðum og við sjáum engin merki um að það sé að hægjast á landrisinu.“

Meira þol í jarðskorpunni

Benedikt segir vísindamenn líta til fyrri reynslu af Kröflueldum á 9. áratug síðustu aldar. Þá hafi alltaf þurft meiri þrýsting til að koma næsta atburði af stað. 

Kannski sé núna sá tími þar sem við bíðum eftir að þeim krítíska þrýstingi sé náð. Hann segir greinilegt að meira þol sé í jarðskorpunni nú. 

„Ástandið í jarðskorpunni er einfaldlega að þróast í þá átt að það verður erfiðara fyrir kvikuna að komast til yfirborðs og þá þarf meiri þrýsting. Svona kerfi þróast og kannski sem er erfitt er að við vitum ekki fyrirfram hvers konar breyting hver atburður hefur í för með sér á kerfinu. Það er eittvað sem við sjáum eftir á,“ segir hann.

Gætu liðið nokkrar vikur til viðbótar áður en kvikuhlaup og eldgos eigi sér stað?

„Auðvitað gæti það gerst en ég á síður von á því. Við erum að búast við að eitthvað gerist fljótlega af því að kerfið er farið að haga sér þannig.“

Hann segir að gert sé ráð fyrir því að fyrirvarinn á gosi verði skammur og það verði að gera það miðað við hvernig eldgosin hafi hagað sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert