Danir komu Verslingum til bjargar

Nemendur þurftu að bíða eftir nýrri flugvél.
Nemendur þurftu að bíða eftir nýrri flugvél. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmur klukkutími er síðan flugvél sem innihélt útskrifaranema úr Verslunarskóla Íslands fór frá Keflavíkurflugvelli til Króatíu. Upphaflega áttu þeir að leggja af stað í útskriftarferð í morgun.

Mat­ar­bif­reið Newrest rakst á hurð farþegaþotu Neos og þurfti því að finna nýja vél. Hún fannst í Danmörku og flugtak var um þrjúleytið í dag. 

„Almennt sýndi fólk þessu mikinn skilning og við vorum með starfmann á staðnum og þau fengu matarmiða til að geta keypt sér eitthvað að borða,“ segir Sara Jó­hann­es­dótt­ir, sölu­stjóri ferðaskrif­stof­unn­ar Indígó. 

Hún segir nemendur hafa verið rólega á flugvellinum og allt farið vel fram.

Ekki fordæmalaust 

Sara segir að ástandið hafi ekki verið fordæmalaust og fyrirtækið hafi einu sinni áður lent í því að þurfa að útvega flugvél með stuttum fyrirvara. 

Vélin sem fengin var í verkið kom frá flugfélaginu DAT í Danmörk og var henni flogið til Íslands frá Kaupmannahöfn.

„Við erum með okkar tengiliði og við vorum líka með aðra valkosti á hliðarlínunni ef til þess kæmi,“ segir Sara. 

Fjórir fóru í tengiflug 

Í heild voru 185 sem þurfti að flytja til Króatíu. Stærstur hluti var Verslunarskólanemar en einnig nokkrir eldri ferðamenn á leiðinni í siglingu í Króatíu.

Vélin reyndist eilítið minni en sú sem upphaflega átti að flytja nemendur. Fyrir vikið þurftu fjórir Verslingar að ferðast í tengiflugi í gegnum Kaupmannahöfn í fylgd fararstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert