„Mest spennandi kosningar í sögunni“

Halla Tómasdóttir telur fylgi sitt enn fara vaxandi.
Halla Tómasdóttir telur fylgi sitt enn fara vaxandi. mbl.is/Brynjólfur Löve

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi fagnar góðu gengi í nýjustu könnun Prósents. Hún segir ánægjulegt að sjá mikið stökk milli kannana. 

„Þetta verða mest spennandi kosningar sögunnar,“ segir Halla glöð í bragði.

Halla mælist með 20,2% fylgi í nýjustu könnun Prósents og hefur fylgi hennar risið nokkuð þétt milli kannana, en í síðustu viku mældist hún með 16,2% fylgi. 

Fólk geri upp hug sinn seinna en áður

„Við erum enn á blússandi siglingu,“ segir Halla og bætir við að síðasta vika kosningabaráttunnar leggist vel í hana. 

Spurð hvað hún hyggist gera í vikunni til að skara fram úr öðrum frambjóðendum, svarar hún því til að hún ætli að halda áfram því sem hún hefur verið að gera allan tímann. 

„Taka þetta á gleðinni og hitta eins margt fólk og dagurinn og kvöldið gefur tilefni til.“

„Ég held að fólk sé að velja seinna en oft áður hvern það ætlar að kjósa,“ segir Halla og leggur áherslu á mikilvægi þess að kjósendur fái að sjá frambjóðendur. 

Bjóða öllum til brúðkaupsafmælisfögnuðar 

Aðspurð segir Halla engan skort á verkefnum í vikunni. Hún sé á leið í fjölda vinnustaðaheimsókna auk þess að taka þátt í minnst fjórum kappræðum. 

„Ég held að gleðin og einlægnin sé það sem skipti sköpum á lokasprettinum. Ekki bara hjá mér öllu því fólki sem er með mér, fjölskyldunni og stóru baklandi af fólki. Við erum að finna svo mikinn meðbyr að við teljum að við séum enn að vaxa.“

Þá fagna Halla og eiginmaður hennar, Björn Skúla­son, brúðkaupsafmæli á miðvikudaginn og af því tilefni ætla þau að bjóða öllum sem vilja að hitta sig í eigin persónu, í kosningamiðstöð Höllu frá 17-19, og taka einlægt spjall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert