Ördæmi um óréttlæti sem fylgi íslensku krónunni

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Arnþór

„Ef við þorum að horfa til lengri tíma þá skiptir máli að svona vafamál væru ekki ef við værum til dæmis með evruna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um niðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Samkvæmt úrskurði dómstólsins, sem kveðinn var upp í síðustu viku, er orðalag skilmála í lánssamningum banka með breytilegum vöxtum ekki gegnsætt hér á landi. 

Í úrskurðinum er tekið fram að al­menn­ir neyt­end­ur þurfi með full­nægj­andi fyr­ir­sjá­an­leika að geta áttað sig á þeim skil­yrðum og þeirri málsmeðferð sem liggi til grund­vall­ar vaxta­breyt­ing­um.

„Það þyrfti ekki að vera fólk með hagfræðipróf í hverri fjölskyldu til þess að skilja alla þessa skilmála sem tengjast íslensku krónunni," segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is

„Þetta er bara eitt svona ördæmi um hvaða vesen og óréttlæti fylgi íslensku krónunni og sér í lagi fyrir heimili og neytendur.“

Ríkisstjórnin þurfi að skerpa línur

„Það blasir við að þingið þarf að fara yfir þetta, það er alveg ljóst, og undirstrika þannig rétt neytenda. Það þarf að gera þetta skýrara. Það eru ýmis lög óskýr þessa dagana og ríkisstjórnin gert lítið í því að reyna að skerpa og skýra línur,“ segir Þorgerður.

Dómsmálið verður tekið til áframhaldandi meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Segir Þorgerður það umhugsunarefni að leita þurfi til EFTA-dómstólsins til þess að neytendur öðlist réttindi.

Nefnir Þorgerður að hún sjái ekki betur en að aðhaldið komi með jákvæðum hætti að utan og að þetta drífi þingmenn til þess að leggja skýrari línur.

„Það eru bara miklir almannahagsmunir fólgnir í því að skýra málið enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert