Taka ábendingum um opin ákvæði alvarlega

Bjarni Benediktsson segir að bíða verði eftir niðurstöðu íslenskra dómstóla …
Bjarni Benediktsson segir að bíða verði eftir niðurstöðu íslenskra dómstóla áður en gripið verði til aðgerða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög mikið hagsmunamál sem taka ber alvarlega og það þarf að tryggja að neytendur séu varðir fyrir ósanngjörnum skilmálum,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurður um niðurstöðu EFTA-dómstólsins um breytilega vexti.

„Þarna er verið að veita ákveðnar leiðbeiningar um túlkun Evrópureglnanna sem íslenskir dómstólar verða svo að taka sjálfstæða afstöðu til þannig það hefur ekki verið kveðinn upp neinn dómur í þessum málum,“ segir Bjarni að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Vilja sterka neytendavernd

„Við viljum að neytendavernd á Íslandi sé sterk og við tökum því alvarlega þegar við fáum ábendingar um að neytendasamtök telji að skilmálar geymi opin og í einhverjum tilvikum loðin ákvæði um heimildir til að endurskoða vaxtaákvæði samninga,“ segir Bjarni spurður hvort ríkisstjórnin kunni að bregðast við niðurstöðunni.

Hann bendir á að skilmálarnir séu ekki allir eins hjá öllum fjármálastofnunum og að málið sé enn til meðferðar hjá dómstólum.

„Við verðum að fá niðurstöðu þar áður en við förum að bregðast frekar við,“ segir Bjarni að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert