„Verið að tryggja aðgengi óháð efnahag“

Við undirritun samnings Félags sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands.
Við undirritun samnings Félags sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands. Eggert Jóhannesson

„Í okkar huga eru þessi tímamót aðgengismál, það er verið að tryggja aðgengi óháð efnahag að þessari mikilvægu þjónustu,“ segir Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara, um nýjan samning félagsins við Sjúkratryggingar Íslands.

Kostnaður sjúklinga lækkar

Nýr samningur Félags sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands var undirritaður á dögunum en sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa starfað án samnings frá því í janúar 2020.

Með nýja samningnum mun kostnaður sjúklinga lækka og samhliða því munu aukagjöld falla niður og Sjúkratryggingar Íslands hefja að greiða eftir uppfærðri gjaldskrá.

Að sögn Gunn­laugs mun samn­ing­ur­inn bæta aðgengi og hag þeirra sem þurfa á sjúkraþjálf­un að halda, sérstaklega þeirra sem þarfnast mikillar þjónustu, á sama tíma og gjaldskráin auki möguleika sjúkraþjálfara til mæta fjölbreyttum þörfum skjólstæðinga.

Formlegar starfsheildir

mbl.is hefur borist ábendingar um að einhverjir starfandi sjúkraþjálfara séu ósáttir að það sé meðal annars markmið samnings þessa að sem flestir sjúkraþjálfarar starfi innan formlegra starfsheilda.

Í samningnum segir: „Starfsheildir skulu vera lögaðilar, í meirihlutaeigu starfandi heilbrigðisstarfsmanna, sem viðkomandi sjúkraþjálfarar hafa samningssamband við.“

En við upphaf samnings er miðað við að innan starfsheildar starfi að lágmarki sjö sjúkraþjálfarar.

„Það er ekki óeðli­legt að ein­hverj­um hugn­ist ekki samn­ing­ur.  Af þeim sem kjósa, þá kjósa 91% með samn­ingn­um. Það seg­ir okk­ur að það sé al­mennt góð sátt með samninginn í heild sinni og  fyr­ir­komu­lag  hans. En auðvitað er ýmislegt sem á eft­ir að þróa og vinna að.  Nánari viðmið og fyrirkomulag starfsheilda eru hluti af þeirri þróunarvinnu þar sem meðal annars verður horft til endurskoðunar á lágmarksfjölda. Upphafsviðmiðin eru innleiðingarviðmið til að styðja við að innleiðing samningsins geti gengið sem best fyrir sig,“ seg­ir Gunn­laug­ur.

Möguleiki á minni stofum á landsbyggðinni

Hann segir að í samn­ingn­um komi fram sjúkraþjálf­arar geti einnig starfað á minni stofum, einkum utan stærri þétt­býl­isstaða. Þannig geti þeir upp­fyllt kröf­ur til starfs­heilda með sam­starfs­samn­ingi við aðra starfs­heild.

Einnig segir hann að vert sé að benda á að hugmyndin að baki starfsheildum sé að skapa umgjörð til að efla gæðastarf og upplýsingaöflun um þessa þjónustu, líkt og unnið er að útfærslum einnig við aðrar fagstéttir. Áfram verði lögð áhersla á að öllum sé frjálst að starfa utan starfsheilda og á sama tíma skapa öflugt umhverfi fyrir sjúkraþjálfara til að starfa innan og veita þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert