„Krufningin mun vonandi segja okkur meira“

Lögreglustjóri Vestfjarða man ekki eftir að annað eins mál hafi …
Lögreglustjóri Vestfjarða man ekki eftir að annað eins mál hafi ratað á borð embættisins. mbl.is/Sigurður Bogi

Lík sambýlisfólks sem fannst látið á heimili sínu í Bolungarvík í gær eru komin til Reykjavíkur ásamt tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Helgi Jensson, lögreglustjóri Vestfjarða, segir rannsókn á vettvangi að meginhluta lokið og telur hann líklegt að krufning fari fram á næstu dögum.  

„Þetta liggur örugglega allt fyrir seinna í vikunni mögulega, alla vega í næstu viku.“

Teljið þið ykkur vera með einhverja mynd af því sem átti sér stað?

„Við áttum okkur auðvitað að einhverju leyti á hlutunum en svo vonum við að krufningin upplýsi það nánar.“

Tilkynning barst um kvöldmatarleytið

Tilkynning um málið barst lögreglu um kvöldmatarleytið í gær frá íbúa, að sögn Helga.

Lögreglan á Vestfjörðum segir ekkert benda til þess að saknæmur atburður hafi átt sér stað. Enginn er með réttarstöðu sakbornings.

„Eins og málið er núna erum við ekki að gruna neinn um að hafa gert eitthvað ólöglegt eða refsivert en það getur auðvitað breyst.“

Krufning gefi skýrari mynd af atburðum

Spurður um hugsanlega dánarorsök vill Helgi lítið gefa upp. 

„Krufningin mun vonandi segja okkur meira um hvað gerðist þarna raunverulega. Við höldum áfram rannsókninni en það er það sem við bíðum eftir núna,“ segir Helgi.

Kveðst hann sömuleiðis ekki geta veitt upplýsingar um hvenær andlátin hafi borið að. 

„Það er líka eitt af því sem krufning leiðir nánar í ljós.“

Man ekki eftir öðru eins máli

Aðspurður kveðst Helgi ekki muna eftir að álíka mál hafi komið á borð lögreglunnar á Vestfjörðum.

„En ég ætla ekki að útiloka að það hafi gerst einhvern tímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert