Lýsi almennt gott fyrir hjartveika

Omega-3-fitusýrurnar EPA og DHA, sem hafa mikið verið rannsakaðar, eru …
Omega-3-fitusýrurnar EPA og DHA, sem hafa mikið verið rannsakaðar, eru einkennandi fyrir sjávarfang og eru til dæmis í lýsi. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Dr. Arnar Halldórsson, framkvæmdastjóri gæðadeildar hjá Lýsi hf., segir vísindagrein sem birtist í vikunni, þar sem meðal annars koma fram möguleg neikvæð áhrif neyslu bætiefna úr fiskiolíu á borð við lýsi, einungis vera dropa í hafsjó rannsókna og vísindagreina sem sýni fram á jákvæð áhrif lýsis á hjarta- og æðasjúkdóma.

Hann bendir á að í greininni komi bæði fram jákvæð og neikvæð áhrif af neyslu á omega-3-fitusýrum. Þar komi einnig fram að nauðsynlegt sé að framkvæma frekari rannsóknir til þess að staðfesta niðurstöðurnar.

Horfi ekki til einstakra rannsókna

„Þessi grein setur okkur í Lýsi ekki úr jafnvægi. Það er til svo óendanlega mikið af niðurstöðum sem styðja jákvæð áhrif lýsis. Það er varasamt að alhæfa aðeins út frá einni grein sem þyrfti að styðja með mikið fleiri rannsóknum eins og kemur fram í greininni sjálfri,“ segir Arnar í samtali við Morgunblaðið. Hann bætir við að jákvæð áhrif omega-3-fitusýranna EPA og DHA hafi fyrir löngu verið staðfest með tugum þúsund vísindagreina og rannsókna.

Arnar segir að Lýsi hf. horfi ekki til einstakra rannsókna, heldur til þeirra heilsufullyrðinga sem eru staðfestar af yfirvöldum eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Ekki er heimilt að halda öðrum fullyrðingum fram um ágæti heilsuvara líkt og lýsis.

„Við hjá Lýsi ætlum að halda okkur við þessar heilsufullyrðingar sem eru leyfilegar gagnvart Matvælastofnun hér og í Evrópu.“

Ólíklegt að greinin breyti nokkru

Arnar tekur fram eina slíka heilsufullyrðingu sem segir að vörur sem innihalda EPA og DHA hafi jákvæð áhrif á hjartastarfsemi. Sú fullyrðing sé staðfest af Evrópusambandinu.

„Ýmsar jákvæðar heilsufullyrðingar omega-3, þar á meðal jákvæð áhrif á hjartastarfsemi, eru staðfestar af Matvælastofnun Evrópu, EFA. Ég tel afar ólíklegt að þessi staka vísindagrein muni breyta nokkru,“ segir Arnar. Þar að auki eru jákvæð áhrif omega-3 nýtt sem virkt efni í lyf gegn hjarta- og æðasjúkdómum í mörgum löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum og í Japan.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í gær, 27. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert