Áfram töluvert hraunflæði

Ekkert nýtt gosop hefur opnast.
Ekkert nýtt gosop hefur opnast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er töluverð kvikustrókavirkni á meginhluta gossprungunnar, sem er um 2,4 km löng. Talið er að um 14 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið frá Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar.

Hraði aflögunar hefur minnkað töluvert en áfram streymir kvika frá kvikusöfnunarsvæði undir Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina.

Ekkert nýtt gosop opnast

Ekkert nýtt gosop hefur opnast í sprungunni. 

Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Hún segir um sé að ræða gjávellu hrauns sem hefur streymt í sprunguna suður fyrir.

„Þetta er ekki per se gosop og þetta er búið að vera opið lengur. Kvikan hefur verið að flæða ofan í sprungur ofar á sjálfri gossprungunni. Í sprungunum þá ferðast hraunið og er að fara þarna upp.“

Hraun runnið yfir Grindavíkurveg

Gossprungan nær suður fyrir Hagafell og rennur hraun ákaft þaðan að mestu til suðurs og vesturs. Hraun hefur runnið yfir Grindavíkurveg til móts við Þorbjörn og þaðan áfram meðfram varnargörðum vestan Grindavíkur og yfir Nesveg. 

Sprengjugos vegna snertingu við grunnvatn

Fyrr hófst sprengivirkni í gosinu vegna þess að kvikan komst í snertingu við grunnvatn þar sem hraunstraumur fer ofan í sprungu til móts við Hagafell. Þá snögghitnar vatnið og framkallar gufusprengingar og gjóskufall (aska).

Nýtt hættumat

Hættumat hefur verið uppfært vegna hraunflæðis og gjóskufalls. Svæði 7 fer úr töluverðri hættu í mikla hættu (rautt). Svæði 4 (Grindavík) er óbreytt (rautt) en hætta hefur aukist vegna gjóskufalls, en einnig eru auknar líkur á gosopnun innan svæðisins og hraunflæðis. Hætta á svæði 3 (Sundhnúkagígaröðin) er áfram mjög mikil (fjólublátt). Svæði 1 og 5 helst óbreytt og er hætta þar talin mikil (rautt).

Nýtt hættumat.
Nýtt hættumat. Kort/Veðurstofa Íslands

Möguleg gasmengun á höfuðborgarsvæðinu

Töluverð óvissa er með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Í kvöld snýst vindátt til suðvesturs og því berst gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu í nótt og á morgun (fimmtudag). 

Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á loftgæði.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert