Margrét Helga heiðruð

Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, afhenti Margréti Helgu heiðursverðlaunin.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, afhenti Margréti Helgu heiðursverðlaunin. mbl.is/Eggert Johannesson

Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2024 fyrir framúrskarandi og ómetanleg störf í þágu íslenskrar leiklistar þegar Gríman var afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðleikhúsinu fyrir stundu. Hún hefur á löngum og farsælum ferli leikið yfir 200 hlutverk á sviði, í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum.

Í samtali við Morgunblaðið segir hún viðurkenninguna hafa komið sér á óvart. Spurð hvaða þýðingu verðlaunin hafi segir hún ljóst að hún „hafi verið að gera eitthvað rétt“.

„Fannst ég fara inn í undraveröld“ 

Þegar heiðursverðlaunahafi ársins var kynntur kom fram að Margrét Helga, sem er fædd árið 1940, hafi verið gripin leiklistaráhuga frá unga aldri. Í samtali við Morgunblaðið rifjar hún upp að hún hafi verið svo heppin að faðir hennar hafi verið í hlutastarfi hjá Þjóðleikhúsinu þegar hún var barn. „Hann tók mig stundum með, þegar hann var að vinna um helgar, og þá sá ég margar sýningar og æfingar. Mér fannst ég fara inn i undraveröld,“ rifjar hún upp og bætir við að ást hennar og áhugi á leikhúsinu hafi ráðið því að hún gerði leiklistina að ævistarfi.

Margrét Helga útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967 og hóf fljótlega störf við leikhúsið, þar sem hún starfaði næstu fjögur árin. Árið 1972 hóf hún svo feril sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó þar sem frumraun hennar var að leika Uglu í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness.

Árið 1987 lék Margrét Helga í Degi vonar eftir Birgi Sigurðsson í leikstjórn Stefáns B aldurssonar sem fékk mikla aðsókn og lof áhorfenda. Á sama tíma vann hún ötullega að því að safna fyrir nýju leikhúsi leikfélagsins með því að taka þátt í miðnætursýningum sem settar voru upp í Austurbæjarbíói. Við Borgarleikhúsið starfaði hún í nær þrjátíu ár. Þar sló hún árið 1990 í gegn í einleiknum Sigrún Ástrós (Shirley Valentine) eftir Willy Russel í leikstjórn Hönnu Maríu Karlsdóttur, en Margrét Helga hafði frumkvæði að því að flytja inn verkið, láta þýða það og sviðsetja í samstarfi við Leikfélag Reykjavíkur.

Nánar er rætt við Margréti Helgu og farið yfir feril hennar í máli og myndum á menningarsíðum Morgunblaðsins á föstudag.

Margrét Helga þakkaði vel fyrir heiðurinn.
Margrét Helga þakkaði vel fyrir heiðurinn. mbl.is/Eggert Johannesson
Margrét Helga Jóhannsdóttir hlustar með athygli á Brynhildi Guðjónsdóttur leikstjóra …
Margrét Helga Jóhannsdóttir hlustar með athygli á Brynhildi Guðjónsdóttur leikstjóra sem fór yfir nokkur atriði rétt fyrir sýningu á Vanja frænda 2020. Þar fór Margrét Helga með hlutverk Marínu fóstru, sem var síðasta hlutverkið sem hún lék í Borgarleikhúsinu. mbl/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert