Mengunin berst í austur

Eldgosið sem hófst fyrr í dag.
Eldgosið sem hófst fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vestanátt er á gossvæðinu við Sundhnúkagíga og berst mengunin þaðan því í austur. Hennar gæti til dæmis orðið vart fyrir austan fjall í Hveragerði, Þorlákshöfn, Selfossi eða annars staðar á Suðurlandi síðar í dag eða í kvöld.

Þetta segir Þorsteinn Jóhannsson, loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfisstofnun aðspurður.

Suðvestanátt í kortunum

Í nótt eða á morgun og áfram næstu daga er spáð suðvestanátt og gæti mengunin því borist yfir höfuðborgarsvæðið.

Aðalmengunarefnið sem um ræðir er brennisteinsdíoxíð.

Engin mengun mælst

Að sögn Þorsteins hefur engin mengun mælst enn sem komið er, enda er gosið nýbyrjað auk þess sem oft gerist það í byrjun eldgosa að vegna mikils hitauppstreymis berst mökkurinn nokkuð hátt frá jörðu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Umhverfisstofnun er með mæla í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ, auk þess sem hún deilir gögnum frá mælum Veðurstofunnar við gosstöðvarnar á vefsíðunni Loftgæði.is. Sömuleiðis eru mælar m.a. fyrir austan fjall.

Varðandi viðbrögð fólks við brennisteinsdíoxíðmengun bendir Þorsteinn á hlekk neðst til vinstri á Loftgæði.is þar sem því er lýst hvernig á að bregðast við mismunandi styrk mengunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert