Yfirlýsingar um rýmingar valda áhyggjum

Þyrla Norðurflugs.
Þyrla Norðurflugs. mbl.is/Árni Sæberg

„Góð aðsókn er í þyrluflug yfir eldgosið á næstu dögum, en maður hefur vissar áhyggjur af lengri tíma afleiðingum svona tíðra gosa,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs í samtali við mbl.is

„Það er búið að gjósa nokkrum sinnum á milli sumra, svo er verið að lýsa því yfir í fjölmiðlum erlendis að verið sé að rýma bæi og svæði og loka Bláa Lóninu sem er eitt af stærstu aðdráttaröflum landsins. Við vitum ekki hvernig áhrif það hefur á til dæmis Bandaríkjamenn sem eru fjölmennasti túristahópurinn sem heimsækir Ísland,“ segir Birgir.

Hver áhrifin verða til sumarsins og jafnvel lengri tíma sé svolítið á huldu, hvort þau verði góð eða slæm, að sögn Birgis.

„Þó að bókanir núna og næstu daga séu miklar, þá eigum við að horfa til lengri tíma,“ segir Birgir.  

Túristar sækjast í flug yfir eldgosið

„Veðrið er nú ekki beint að spila með okkur næstu daga, það verður að koma í ljós hvernig það verður og hvernig gosinu farnast,“ segir Birgir aðspurður hvort mörg þyrluflug yfir gosið séu á dagskrá næstu daga.

Hann segir að það séu aðallega túristar sem sækjast í það að fljúga yfir eldgosið.

„Til nær tíma getur þetta verið til góðs en til lengri tíma er ég ekki viss um að þetta sé til góðs, útaf tíðni gosanna og hvernig þessu er háttað í fréttum erlendis,“ segir Birgir.

Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs.
Birgir Ómar Haraldsson, forstjóri Norðurflugs. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert