Annað áhlaup gæti orðið á næstu dögum

Frá gosstöðvunum við Sundhnúkagíga í gær.
Frá gosstöðvunum við Sundhnúkagíga í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mælingar benda til að landris sé hafið að nýju við Svartsengi en eldgosið við Sundhnúkagíga hefur nú staðið yfir í þrettán daga.

„Það lítur út fyrir að landris sé hafið að nýju síðan um helgina og landsigið sem mældist fyrstu daga gossins því lokið. Ekki er hægt að meta hraðann á landrisinu á þessari stundu, en gera má ráð fyrir að innflæði kviku í kvikusöfnunarsvæðið sé orðið meira en útstreymi úr gígnum,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.

Eldgosið hefur verið stöðugt en einn gígur er virkur og hefur virknin verið svipuð síðustu daga. Skjálftavirkni hefur verið afar lítil síðustu viku, einungis örfáir skjálftar hafa mælst.

Enn hreyfing á hrauntungunni

Enn er hreyfing á hrauntungunni sem rennur nú til norðvestur eftir svipuðum farvegi og sú sem rann yfir Grindavíkurveg á laugardag. Virkur jaðar hennar er þó enn í nokkur hundruð metra fjarlægð frá veginum og hreyfist afar hægt.

„Hraun safnast enn í hrauntjörn rétt suðaustan Sýlingarfells sem gæti tæmt sig að nýju og komið af stað öðru áhlaupi á næstu dögum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert