„Held að það sé komin þreyta í Íslendingana“

Þyrlur Norðurflugs.
Þyrlur Norðurflugs. mbl.is/Árni Sæberg

Langflestir þeirra sem fljúga með Norðurflugi yfir gosstöðvarnar við Sundhnúkagíga eru erlendir ferðamenn.

Þetta segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, í samtali við mbl.is. Hann segir að það sé nóg að gera í þyrluferðunum yfir gossvæðið en gosið, sem er í gangi við Sundhnúkagíga og hefur staðið yfir í þrettán daga, er það fimmta á svæðinu frá því í desember.

„Ég held að það sé komin þreyta í Íslendingana á þessum gosum og þeir eru ekki að fara eins mikið í þessar ferðir og þeir gerðu 2021, 2022 og 2023. Maður skilur það alveg af því þarna eru innviðir í hættu og margt sem manni hefur fundist fara mjög miður,“ segir Birgir Ómar.

Hann segir að útlendir ferðamenn sækist töluvert eftir því að komast í þyrluferðirnar og áætlar að 80 prósent þeirra sem panta sér ferð að gosstöðvunum séu útlendingar.

10-20 ferðir á dag

„Eins og hefur komið fram hjá Ferðamálastofu er gert ráð fyrir færri séu að koma til landsins í ár þannig að þetta er ekki alveg eins og á fyrri árum en er þó drjúgt samt.“

Birgir segir að þyrlur Norðurflugs séu að fara 10-20 ferðir að gosstöðvunum á dag en það ráðist af veðurfari og öðru slíku. Hann segir að meiri ásókn sé í ferðirnar um helgar en Norðurflug er með þrjár þyrlur til taks. Þyrluferð á mann að gosstöðvunum kostar 56.900 krónur og tekur hún um 35 mínútur.

Hann segir að Norðurflug sé líka mikið í öðrum flugferðum en að gosstöðvunum og þar nefnir hann til að mynda ferðir að Langjökli og Jökulsárlóni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert