Lýsa yfir stuðningi við Ármann

Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson

Þrír bæjarfulltrúar í Kópavogi hafa sent frá sér yfirlýsingu um að þeir styðji Ármann Kr. Ólafsson til forystu í bæjarstjórn. Ármann keppnir við Gunnar I Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra um sæti oddvita Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.


„Við undirrituð bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi styðjum Ármann Kr. Ólafsson til að leiða lista sjálfstæðismanna í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Við höfum unnið náið með Ármanni í bæjarstjórn og nefndum bæjarins og vitum að hann hefur þá þekkingu, reynslu og hæfileika til að bera sem forystumanni eru nauðsynlegir.
 
Við treystum Ármanni sem leiðtoga sjálfstæðismanna í Kópavogi til að innleiða nýjar áherslur hjá Sjálfstæðisflokknum í bænum og halda í heiðri vinnubrögð sem byggjast á virðingu gagnvart ólíkum skoðunum, gagnsæi og trausti. Við vitum jafnframt að Ármann býr yfir þeirri ákveðni sem þarf til að fylgja baráttumálum sjálfstæðismanna eftir.
 
Við hvetjum sjálfstæðismenn í Kópavogi til að taka þátt í prófkjörinu 20. febrúar og setja saman sterkan lista sem mun tryggja Sjálfstæðisflokknum glæsilega niðurstöðu í kosningunum í vor.“


Undir yfirlýsinguna skrifa Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri, Ragnheiður K. Guðmundsdóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir.

mbl.is