Ekki tilefni til að sprengja ríkisstjórn

Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þorsteinn Víglundsson, frambjóðandi Viðreisnar og fráfarandi félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að ekki hafi verið tilefni til að sprengja upp ríkisstjórnina.

„Það voru gríðarleg vonbrigði hvernig fór með þessa ríkisstjórn og eins og hefur nú komið á daginn þá var þetta aldrei tilefni til þess að sprengja upp stjórnarsamstarf. Menn þurfa að geta staðið í lappirnar,“ sagði Þorsteinn í spjallþættinum.

Þegar þáttastjórnandi innti hann eftir því hvað hann meinti nákvæmlega og við hvaða tilefni hann ætti sagði Þorsteinn: „Málið sem varð á endanum stjórninni að falli, þegar rykið var fallið og þegar búið var að fara í gegn um það eins og við kölluðum eftir þá var ekkert tilefni í því máli til þess að fara að sprengja stjórnarsamstarf. Þar hefði Björt framtíð betur mátt bíða og sjá hvernig málið væri nákvæmlega vaxið áður en það væri hlaupið út undan sér á næturfundi að sprengja ríkisstjórnina.“

mbl.is