Vill ráðast í kerfisbreytingar

Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins, kynnir stefnumál flokksins í Rúgbrauðsgerðinni …
Sigmundur Davíð Guðlaugsson, formaður Miðflokksins, kynnir stefnumál flokksins í Rúgbrauðsgerðinni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Kerfisbreytingar á fjármálakerfinu, atvinnulíf og nýsköpun, menntun og vísindi, heilbrigðiskerfið og réttindi eldri borgara verða megin áherslur Miðflokksins í alþingiskosningunum 28. október.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kynnti kosningaáherslur flokksins á opnum fundi í Rúgbrauðsgerðinni í dag. Yfirskrift áherslnanna er „5+1“ þar sem +1 flokkurinn er heildarstefna undir heitinu „Ísland allt“ sem Sigmundur kynnti sérstaklega.

„Þetta verður ekki tæmandi umfjöllun um stefnumál flokksins,“ sagði Sigmundur í upphafi kynningarinnar. Málefnin sem tilheyra þessum fimm flokkum eiga það sammerkt að sögn Sigmundar að þau snúast öll um kerfisbreytingar. „Hugmyndin með þessari stjórnmálahreyfingu er að hún verði róttækt umbótaafl. Margt að þessu kann að verða umdeilt og sumir munu halda því fram að eitthvað af þessu sé ekki hægt. En allt er það kunnugleg umræða og við treystum okkur til að fylgja þessu eftir af krafti og gera það sem við segjumst ætla að gera og uppfylla loforðin og með því uppskera árangur fyrir samfélagið.“

Verðtrygginguna burt

Fjármálakerfið var fyrirferðarmikið í kynningu Sigmundar og eitt af helstu stefnumálum Miðflokksins verður að losna við verðtrygginguna. „Við munum þurfa samstarf við aðra flokka og maður er reynslunni ríkari í því. Markmiðið er ófrávíkjanlegt en ef menn geta sýnt fram á betri leiðir erum við tilbúin að skoða það,“ segir Sigmundur.

Þá vill flokkurinn að ríkið nýti forkaupsrétt að Arion banka og að þriðjungur bankans verði afhentum öllum Íslendingum til jafns. Hver Íslendingur sem er lifandi á tímabilinu 1. desember 2018 til 1. desember 2019 mun eignast hlutabréf í bankanum, gangi áætlun flokksins eftir.

Miðflokkurinn vill einnig að bankarnir verði minnkaðir með því að greiða úr þeim umfram eigið fé í ríkissjóð og að Íslandsbanki verði seldur erlendum banka.

Atvinnulíf, nýsköpun, menntun og vísindi verða einnig á stefnuskrá flokksins og þar má helst nefna lækkun tryggingagjalds og stuðning við nýsköpunargreinar. Sigmundur sagði mikilvægt að  laga öll skólastig að tæknibreytingum og framtíðarþörfum og talaði hann um 21. aldar menntun.

Nýr spítali á nýjum stað

Kerfisbreytingar bar aftur á góma þegar kemur að heilbrigðismálum. „Þetta er ekki bara spurning um meira fjármagn heldur kerfisbreytingar,“ segir Sigmundur. Nýr spítali á nýjum stað verður eitt af áherslumálum flokksins í heilbrigðismálum. „Þetta er algjörlega borðleggjandi finnst mér að það er hagkvæmara og fljótlegra að byggja nýjan spítala en að byggja við gömul, ósamstæð og stórgölluð hús í miðbænum,“ segir Sigmundur.

Frambjóðendur og stuðningsmenn Miðflokksins hlustuðu á kynningu á stefnumálum flokksins …
Frambjóðendur og stuðningsmenn Miðflokksins hlustuðu á kynningu á stefnumálum flokksins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Eldri borgarar voru látnir bíða

Réttindi eldri borgara er einn af málaflokkunum fimm sem Miðflokkurinn mun leggja áherslu á og segir Sigmundur að ástæðan fyrir því eigi sér sögulega skírskotun. „Á sínum tíma sem forsætisráðherra gaf ég eldri borgunum ákveðin fyrirheit. Þeir voru látnir bíða á vissan hátt á meðan var verið að klára tilteknar aðgerðir í efnahagsmálum en ég og ríkisstjórnin lofuðum að að því búnu yrði gert upp við þá. Þeir höfðu dregist aftur úr en við myndum laga það og þess vegna hef ég þetta eitt af aðalatriðunum hér og mér er mikið í mun að við stöndum við þau fyrirheit.“

Meðal áherslumála í málefnum eldri borgara er að lágmarkslífeyrir muni fylgja lágmarkslaunum. „Forgangsröðun hjá ríkinu verður að fela í sér að þeim sem hafa lokið starfsævinni séu tryggðar tekjur sem hægt er að lifa á,“ segir Sigmundur.

Gunnar Bragi Sveinsson (t.h.) opnaði fund Miðflokksins áður en Sigmundur …
Gunnar Bragi Sveinsson (t.h.) opnaði fund Miðflokksins áður en Sigmundur Davíð Guðlaugsson kynnti stefnumál flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ísland allt“

Að lokum kynnti Sigmundur heildaráætlunina „Ísland allt“ sem snýst að hans sögn um að Ísland fari að virka sem ein heild. Sigmundur sér fyrir sér samstillt átak sveitarfélaga, landshlutasamtaka, stofnana, atvinnurekenda, ráðgjafafyrirtækja og fleiri aðila. Áætluninni verði stjórnað frá einum stað og leggur Sigmundur til að forsætisráðuneytið verði fyrir valinu og forsætisráðherra muni bera ábyrgð á verkefninu. „Með þessu er hægt að tryggja að hver króna sem sett er í verkefnið verður nýtt.“

Sigmundur segir að með heildaráætluninni verði meðal annars hægt að stuðla að tengingu byggða, ljósleiðaravæðingu alls landsins, samræmingu á sviði skipulagsmála, stuðningi við menningarstarf og ýmsu öðru.

Sigmundur segir ákveðna vá steðja að landinu. „Hún er sú að byggðarþróun gangi það langt í öfuga átt, það er að segja að fólki fækki það mikið á tilteknum stöðum á landinu, störfum fækki á ákveðnum stöðum að það festi í sessi ákveðna keðjuverkun. Þegar hún er komin ákveðið langt er mjög dýrt og jafnvel ómögulegt að ýta henni til baka. En staðan er ennþá sú að það er hægt að snúa þessu við. Með samstilltu átaki er hægt að treysta byggðir í sessi, hringinn í kringum landið, og þar með verðmætasköpun sem ég er sannfærður um að verði þar.“

Spurður um hvernig hann telji að flokknum muni takast að vinna með öðrum flokkum að málefnum sínum segir Sigmundur að það sem skilji Miðflokkinn fá öðrum flokkum séu þær kerfisbreytingar sem Miðflokkurinn vill ráðast í. „En það getur líka verið kostur að mér hefur virst stefnuskrá margra annarra flokka nokkuð almennt orðaðar sem skapar svigrúm til að ná saman. Mín megin hugsjón í þessu er að markmiðin sem við erum að kynna séu ófrávíkjanleg en ef aðrir geta sýnt okkur fram á betri leiðir til að ná þeim markmiðum erum við alveg til í að skoða það.“

Sigmundur er vongóður um að aukin áhersla verði lögð á málefni það sem eftir er kosningabaráttunnar. „Það er ekki seinna vænna að fara að láta umræðuna snúast um málefni. Ég vona það að þessar tvær vikur nýtist vel í það.“mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka