„Við getum allan andskotann“

Guðrún sér ekki þörfina fyrir enn eitt framboðið núna.
Guðrún sér ekki þörfina fyrir enn eitt framboðið núna. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skiptar skoðanir eru á því meðal gamalla Kvennalistakvenna hvort þörf sé á nýju kvennaframboði í dag til að koma feminískum sjónarmiðum á framfæri, líkt og hugmyndir eru uppi um. Ein telur ekki þörf á öðru framboði akkúrat núna, önnur segir mikilvægt að ræða markmið slíks framboðs á meðan sú þriðja segir kvennaframboð eina leið, en þó ekki þá einu.

Um 120 konur mættu í gærkvöldi til fundar um kvennaframboð sem Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgafulltrúi Vinstri grænna, boðaði til á Hótel Sögu. Í ályktun sem send var út eftir fundinn segir meðal annars: „Við höfnum þeirri mýtu að við búum í jafnréttisparadís og við erum hingað komnar til að sýna fram á að það er rangt að konur hafi ekki kjark, dug eða þor til að taka þátt í pólitík.“

Á fundinum var ákveðið að hittast aftur, stofna málefnahópa, halda starfsdag og sjá hvað kæmi út úr því. Ekki hefur því verið ákveðið hvort af kvennaframboði verður en ljóst er að mikill hugur var í þeim konum sem mættu á fundinn í gær. Sóley sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það væri stutt í sveitarstjórnarkosningar og því ágætt að konur væru vel undirbúnar ef framboðið yrði að veruleika.

Sóley viðraði hugmynd um kvennalista á Facebook-síðu sinni fljótlega eftir að fyrstu tölur lágu fyrir í kosningunum á laugardag og ljóst var að konum myndi fækka töluvert á þingi. Þær eru nú 24 en voru 30 á síðasta kjörtímabili.

Mbl.is ræddi við þrjár konur sem komu að stofnun Kvennalista fyrir tæpum 35 árum og hristu upp í íslenskum stjórnmálum þar sem feðraveldið var ríkjandi með sinni karllægu nálgun á flest mál. Kvennalistinn bauð fyrst fram til Alþingis árið 1983 og varð framboðið ekki bara til þess að konum fjölgaði á þingi heldur komu þær ýmsum málefnum á dagskrá íslenskra stjórnmála, sem ekki hafði verið gefinn mikill gaumur, en vörðuðu samfélagið allt; líkt og kynferðisofbeldi gegn konum og börnum, réttindum kvenna á vinnumarkaði, umhverfismálum og fleiru.

Engin Kvennalistakvennanna fyrrverandi virðist skynja að það sé brýn þörf fyrir kvennaframboð akkúrat á þessum tímapunkti. Það sé hins vegar leið sem megi skoða. Þær fagna þó allar umræðunni og telja jákvætt að konur komi saman og virki kvenorkuna. Þá eru þær allar sammála um að eitthvað þurfi að gera til að bregðast við fækkun kvenna á þingi.

Konum fækkar töluvert á þingi frá því á síðasta kjörtímabili.
Konum fækkar töluvert á þingi frá því á síðasta kjörtímabili. mbl.is/Ófeigur

Sér ekki þörfina fyrir annað framboð núna

Guðrún Ögmundsdóttir, ein þeirra sem kom að stofnun Kvennalistans á sínum tíma, sér ekki alveg þörfina fyrir nýtt kvennaframboð núna, ekki nema kannski í Suðurkjördæmi, sem hún kallar biblíubelti.

„Ég átta mig ekki alveg á því hvað er í gangi. Kannski er þetta bara spegill og konur vilja spegla málin. Ég sé ekki alveg að það sé þörf fyrir kvennaframboð akkúrat núna, en það er alltaf þörf fyrir að konur tali saman. Það er alltaf jákvætt,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

„Kannski þarf að stofna kvennaframboð á biblíubeltinu í Suðurkjördæmi. Það væri kannski smart að kalla saman konur á Suðurlandi og sjá hvað er hægt að gera til að breyta því sem þar er í gangi. Svo er kannski enn meiri þörf á að ná konum á hægri væng til að þrýsta á sína flokka.“

Guðrún fékk boð á fundinn um kvennaframboðið í gær, en boðið barst henni seint og hún komst ekki. Hún áttar sig þó ekki alveg á tilganginum. „Kannski er þetta bara þörf kvenna til að spjalla saman. Kannski er þetta einhver hópavinna til að búa til þrýstiafl á flokkana. Ég held að það sé alla vega ekki þörf á einu framboðinu til viðbótar núna.“

Hún segir þó alltaf jákvætt að virkja kvenorkuna. „Kvenorkan er alltaf skemmtileg en hún getur haft bylgjuáhrif annars staðar, þannig það þarf að anda inn og út og sjá hvað gerist. Mér finnst þetta svolítið sérkennileg tímasetning.“

Guðrún er engu að síður á því að niðurstaða kosninganna á laugardag sé agaleg fyrir konur. „Þetta er orðið ótrúlegt karlaveldi. Það er árið 2017, ekki 1991. Ég er eiginlega alveg bit. Maður sér svo vel hvað prófkjör eru mikil hindrun fyrir konur. Það er hægt að tryggja jafnt hlutfall karla og kvenna með því að gera kannanir, fá nöfn á blað og stilla svo upp eftir það.

Guðrún segir það algjöra vitleysu að konur hafi ekki áhuga á pólitík og þess vegna sé erfitt að fá þær til að taka þátt. „Ég veit ekki hvaðan sú hugmynd kemur og mér er alveg fyrirmunað að skilja þá þvælu. Ég lít á það sem þvælu. Konur hafa alla tíð viljað axla ábyrgð og eru til í allt. Við getum allan andskotann,“ segir Guðrún að lokum.

Kristín segir mikilvægt að ræða hver markmiðin með kvennframboði yrðu.
Kristín segir mikilvægt að ræða hver markmiðin með kvennframboði yrðu. mbl.is/Golli

„Ég hvet alltaf konur til byltingar“

Kristín Ástgeirsdóttir kom einnig að stofnun Kvennalistans, sat á þingi fyrir flokkinn og var formaður þingflokksins um tíma. Henni líst vel á þetta framtak Sóleyjar Tómasdóttur að boða til fundar um kvennaframboð. Hún segir markmiðin með slíku framboði þó þurfa að vera skýr.

„Mér finnst þetta fínt og ég hefði mætt á fundinn ef ég hefði verið á landinu. Mér finnst mjög ánægjulegt að konur séu vakandi eftir þetta bakslag sem varð núna í kosningunum. Það sýnir okkur að við erum ekki með kerfi sem tryggir jafnrétti kynjanna á þingi.“

Hún segir hins vegar erfitt að meta hvort þörf er á sérstöku kvennaframboði núna. „Þessi umræða hefur komið upp hvað eftir annað þegar einhver bakvindur hefur komið í seglin. Fyrst þarf auðvitað að ræða til hvers og hver markmiðin eru. Markmiðið er ekki eingöngu að fjölga konum heldur tryggja að ákveðin mál séu á dagskrá.“ Kristín segir það til dæmis hafa verið vandamál í þessum kosningum hvað ofbeldismál komust lítið á dagskrá.

„Kveikjan að því að ríkisstjórnin sprakk var út af málum um uppreist æru, en svo voru þau mál mjög lítið á dagskrá. Hugmyndir um það hvernig þyrfti að bæta stöðuna voru ekki til umræðu.“

Kristín segir þetta í raun vera spurningu um hvað það er sem brenni á konum núna. „Þegar þetta gerðist hjá okkur fyrir næstum 35 árum þá var ákveðin tilfinning fyrir því að við værum í blindgötu. Að það þyrfti að gerast eitthvað nýtt til að koma hreyfingu á málin. Enda var hlutur kvenna 5 prósent á þingi og 6 prósent í sveitarstjórnum. Fyrir utan áherslur, brennandi þörf fyrir leikskóla og fleira. Spurningin er hvað brennur á konum núna og finnst þeim það nóg til að fara út í framboð. Spurningin er til hvers. Ég býst líka við því að tilfinningin sé sú að það sé ekki verið að hlusta á það sem brennur á konum.“

Kristín segir það því verða að koma í ljós hvort grundvöllur er fyrir kvennaframboði í anda Kvennalistans. Það fari allt eftir því hvernig umræðan þróast. „Ég hvet alltaf konur til byltingar, hvar og hvenær sem er,“ segir Kristín hlæjandi að lokum.

Sigríður Dúna, ásamt manni sínum Friðriki Sophussyni og dóttur þeirra …
Sigríður Dúna, ásamt manni sínum Friðriki Sophussyni og dóttur þeirra Gabríelu Friðriksdóttur. Sigríður segir mikilvægt að konur og karlar taki saman höndum um sameiginlega hagsmuni.

Komumst ekki langt nema karlar berjist líka

„Það er augljóst eftir þessar kosningar og úrslit þeirra að konur verða að fara að hugsa sér til hreyfings. Þegar ég tala um úrslitin þá á ég ekki bara við fjölda kvenna sem eru kjörnar á þing, heldur líka málefnin. Feminísk sýn var ekki uppi á borðum í þessari kosningabaráttu,“ segir Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Ásamt því að koma að stofnun Kvennalistans sat Sigríður á þingi fyrir flokkinn frá 1983 til 1987 og gegndi formennsku í þingflokknum frá 1985 til 1986.

Hún segir kvennaframboð þó ekki einu leiðina til að koma feminískri sýn til skila. Það þurfi einfaldlega feminísta til, bæði konur og karla.

„Kvennaframboð er auðvitað ein leið. Hún hefur verið reynd áður, eins og menn vita. Það sem skiptir hins vegar öllu máli, verði kvennaframboðsleið farin til að koma feminískum áhrifum inn í stjórnmálin, er að konur gæti sín mjög vel á því að verða ekki útibú frá einhverjum af flokkunum. Þær þurfa að vera algjörlega á sínum eigin kvennapólitísku forsendum.“ Hún segir að ef kvennaframboð eigi að vera beitt baráttutæki núna, sé þetta algjört lykilatriði.

„Við sögðum gjarnan í gamla daga að við værum þriðja víddin. Ekki hægri og ekki vinstri. Árásirnar sem við fengum á okkur í Kvennalistanum voru að vinstri menn sögðu að við værum íhaldskellingar og hægrimenn sögðu að við værum aftaníossar allaballa. Báðir reyndu að klína okkur á andstæðinga sína og þar með draga tennurnar úr okkur.“

Aðspurð hvort hún telji þörf á kvennaframboði núna segist Sigríður fagna allri hreyfingu í þessa áttina. Mér finnst hafa verið doði og deyfð undanfarið. Ég fagna því að umræðan sé að minnsta kosti komin í gang. Eftir 40 ár í þessari baráttu þá veit ég að við komumst ekki mjög langt nema að karlar berjist líka fyrir feminískum sjónarmiðum. Það er mikilvægt að við tökum höndum saman um þessa sameiginlegu hagsmuni okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert