Segir sjálfstæðismenn í vandræðum

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður Vinstri grænna, segir að sjálfstæðismenn séu í miklum vandræðum með ráðherraval í viðræðunum um stjórnarmyndun sem nú standa yfir.

Hann segir á Facebook-síðu sinni að það verði ekki þolað innan flokksins að það halli á konur í ráðherraliðinu.

Að sögn Björns Vals hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sótt það fast að fá sjötta ráðherrann til að draga úr þeirri óánægju sem mun vera innan þingflokksins, annars vegar með ríkisstjórnarmyndunina og hins vegar með ráðherraskipan.

„En það hafa hinir flokkarnir tveir ekki tekið í mál, hvað sem síðar kann að verða,“ skrifar Björn.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í ráðherrabústaðnum ...
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson í ráðherrabústaðnum í gær. mbl.is/​Hari

Hann nefnir að Bjarni, Kristján Þór Júlíusson, Sigríður Á. Andersen og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verði líklega áfram ráðherrar í nýrri ríkisstjórn.

„Ekki er talið ólíklegt að Bjarni sæki þriðja ráðherrann utan þingflokksins sem yrði þá Unnur Brá Konráðsdóttir. Samkvæmt þessu munu þeir Guðlaugur Þór og Jón Gunnarsson víkja úr ríkisstjórn, báðir ósáttir.“

mbl.is