Hildur segir forgangsmál að komast í meirihluta

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og borgarfulltrúi segir í samtali við mbl.is „algjört forgangsmál“ að komast í meirihluta í borginni.

Núverandi meirihluti borgarstjórnar er fallinn og því óvissa um samsetningu meirihluta fyrir komandi kjörtímabil.

Er forgangsmál hjá þér að komast í meirihluta?

„Já, það er algjört forgangsmál. Við viljum hafa áhrif í borginni og standa við það sem við lofuðum kjósendum okkar.“

Píratar, Samfylkingin, Vinstri græn og Sósíalistar hafa gefið það út að þau munu ekki mynda borgarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. 

Gerir það ekki meirihlutasamstarf ykkar erfitt?

„Það eru alls konar möguleikar á teikniborðinu. Nú þarf bara aðeins að sjá hvernig næstu dagar spilast,“ segir Hildur en hún segir engar formlegar viðræður hafnar heldur „bara óformleg samtöl“.

Þakklát þrátt fyrir sögulega lágt fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn fékk minnsta fylgi í borginni í sögu flokksins, 24,5 prósent, en Framsókn fékk sögulega hátt fylgi, 18,7 prósent.

„Við erum búin að vita það í margar vikur að fylgið myndi minnka frá síðustu kosningum. Við vorum að horfa á síðustu vikur frekar slæmar kannanir, ekki síst eina sextán prósenta könnun nokkrum dögum fyrir kjördag. Það gaf okkur byr í seglin og við tókum ótrúlegan lokasprett. Við erum ótrúlega þakklát fyrir þessa niðurstöðu, “segir Hildur.

„Stóru tíðindin eru þau að meirihlutinn er fallinn og Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í borginni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert