„Veðurguðirnir sendu skýr skilaboð“

Halldór Hreinsson eigandi Fjallakofans.
Halldór Hreinsson eigandi Fjallakofans. mbl.is/Unnur Karen

Fjallakofinn er ein fremsta útivistarvöruverslun landsins. Vöruúrval verslunarinnar spannar alla flóruna á sviði útivistar og útiveru. Þar er að finna skíða- og snjóbrettabúnað, hjól og hjólafatnað, tjöld og annan viðlegubúnað, að ógleymdum sívinsælu SCARPA-göngu- og götuskónum sem hafa verið á íslenskum markaði í 50 ár.

Verslun Fjallakofans er til húsa í 1.700 m2 tveggja hæða húsnæði í Hallarmúla 2 í Reykjavík sem áður hýsti Pennann. Verslunin er því afar rúmgóð og státar af fjölbreyttu úrvali af hágæðavörum frá helstu útivistarmerkjum heims.

Halldór Hreinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Fjallakofans, segir útivist vera sínar …
Halldór Hreinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Fjallakofans, segir útivist vera sínar ær og kýr. Ljósmynd/Aðsend

„Á efri hæðinni er allur fatnaðurinn og á neðri hæðinni er bæði skó- og hjóladeild ásamt stærstu skíðadeild á landinu og fullkomnu skíðaverkstæði,“ segir Halldór Hreinsson eigandi Fjallakofans.

„Við erum með vönduð og þekkt vörumerki hjá okkur en langstærst og öflugast er hið göfuga PATAGONIA. Það er mjög umhverfisdrifið en afrakstur rekstursins fer í að berjast gegn loftslagsvá og náttúruspjöllum,“ segir Halldór og telur skíðabúnað nytsamlega og endingargóða jólagjöf.

„Ég held að veðurguðirnir hafi verið að koma með skýr skilaboð um helgina til þeirra sem áttu eftir að ákveða mikilvægustu jólagjafirnar handa sínum nánustu. Það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur það mikill snjór fallið til jarðar síðustu daga að skíðasvæðin geta opnað og verða vonandi opin langt fram eftir vetri,“ segir Halldór. „Veðrið hefur verið frekar þurrt og snjólaust í haust en nú hafa veðurguðirnir vaknað af værum blundi og því fögnum við hér í Fjallakofanum.“

Áratugareynsla og persónuleg þjónusta

Segja má að Halldór sé mikill reynslubolti á sviði skíðaiðkunar. Í hartnær 60 ár hefur hann stundað skíði en hann var aðeins þriggja ára gamall þegar hann renndi sér fyrst niður brekkur á skíðum. Hvað sem því líður er hann hógvær á eigin skíðakunnáttu þrátt fyrir að hafa sjálfur kennt ótalmörgum á skíði.

Halldór segir skíðaíþróttina vinsæla á meðal barnafjölskyldna enda séu samverustundirnar …
Halldór segir skíðaíþróttina vinsæla á meðal barnafjölskyldna enda séu samverustundirnar í fjöllunum óviðjafnanlegar. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði snemma að brölta á skíðum og man vel eftir Arnarhól, Ártúnsbrekkunni, og svo Hveradölum áður en farið var að skjökta inn í Bláfjöll upp úr 1965. Skíðaiðkun er mín ástríða og hefur alla tíð verið,“ segir Halldór sem hefur verið fararstjóri í ófáum skíðaferðum í gegnum árin.

„Maður þarf stundum að passa stóru lýsingarorðin en það sést bara í brekkunum hvað maður getur,“ segir Halldór og varpar frekar ljósi á starfsfólk Fjallakofans.

„Ég hef aldrei æft eða keppt á skíðum en starfsfólk skíðadeildarinnar býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Þetta er allt fólk sem hefur æft, keppt eða verið á skíðum og hvers kyns útivist frá því það man eftir sér,“ segir hann.

„Við leggjum áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu. Við skiljum viðskiptavini okkar vel. Við erum oft með viðskiptavini í myndsímtali um alla búð því þeir vilja klára allt dæmið með okkur,“ lýsir Halldór.

Verslun Fjallakofans í Hallarmúla 2 er ansi rúmgóð og flott.
Verslun Fjallakofans í Hallarmúla 2 er ansi rúmgóð og flott. Ljósmynd/Aðsend

„Við viljum fylgja viðskiptavinum okkar alla leið og seljum þeim ekki eitthvað sem er ekki að gera sig. Það er okkar keppikefli að gera vel svo þeir komi aftur.“

Halldór er hreykinn af Fjallakofanum og hversu leiðandi verslunin hefur verið hér á landi síðastliðin 18 ár.

„Fjallakofinn skipar mjög sterka stöðu á þessu sviði. Við höfum sankað að okkur mestu reynsluboltum sem fyrirfinnast í skíðageiranum á Íslandi og það er okkar sérstaða. Við höldum áfram að vaxa og dafna. Nýjasta afkvæmið er skíðaleiga Fjallakofans í Hlíðarfjalli á Akureyri sem er mjög verðugt og skemmtilegt verkefni.“

Starfsmenn Fjallakofans eru fagmenn fram í fingurgóma.
Starfsmenn Fjallakofans eru fagmenn fram í fingurgóma. Ljósmynd/Aðsend

Íþrótt fyrir alla fjölskylduna

Halldór segir skíðaíþróttina fara sífellt vaxandi. Mikil nýliðun eigi sér stað í íþróttinni og þar komi fjölskyldur sterkar inn.

„Þetta er verða ein aðalafþreying og útivera yfir helgar á veturna. Sérstaklega frá desember og fram yfir páska. Fjallakofinn hefur mætt þessari sveiflu með því að taka yfir rekstur á Skíðaleigu Hlíðarfjalls þar sem allir geta fengið að prófa nýjustu skíðin,“ segir Halldór og leggur áherslu á að iðkendur velji réttan skíðabúnað til að gæta að eigin öryggi.

Starfsfólk Fjallakofans eru að sögn Halldórs miklir reynsluboltar.
Starfsfólk Fjallakofans eru að sögn Halldórs miklir reynsluboltar. Ljósmynd/Aðsend

„Svigskíðin eru langvinsælust en það er mikil aukning í sölu á snjóbrettum. Svo fylgja gönguskíðin eftir og eins stálkanta ferðagönguskíði ef fólk er að fara svolítið lengra inn á fjöll og jökla. Fjallaskíðin sprungu algjörlega út yfir Covid-tímann. Þegar öll skíðasvæði voru lokuð seldust þau í bílförmum og er sá hluti nokkuð stöðugur í dag. Einnig er mikið framboð af notuðum fjallaskíðabúnaði í Fjallamarkaðnum okkar. Þar seljum við notaðan skíðafatnað og annan búnað.“

Halldór vill ekki síður minna höfuðborgarbúa á að ekki sé nauðsynlegt að hreyfa stóra bíla til að fara á skíði. Í borginni leynast lítil skíðasvæði rekin þannig að auðvelt aðgengi er að þeim til dæmis með strætó.

„Reykjavíkurborg á hrós skilið fyrir skíðasvæðin í Grafarvogi, Breiðholti og Ártúnsholti. Þangað er stutt að fara og ekki er verra að hafa kakó, flatkökur og kex með í farteskinu.“

mbl.is