Grískar goðsagnir og KFC

Í níunda og síðasta þætti Lestrarklefans á Storytel fáum við að heyra upplestur Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur úr spennusögunni Blindu eftir Ragnheiði Gestsdóttur ásamt því að sjá viðtal við Örvar Smárason sem er höfundur smásagnasafnsins Svefngríman. Í settinu ræða Rebekka Sif, Katrín Lilja og Hugrún um bæði Blindu og pistlasafnið Við erum bara að reyna að hafa gaman eftir Halldór Armand.

Tilfinningarótið við að missa sjónina

Blinda er þriðja spennusaga Ragnheiðar Gestsdóttur en hún fjallar um Sólveigu, sextuga ekkju, sem er að missa sjónina en vill ná hefndum áður en það gerist. „Innri heimur og upplifun konu sem er að missa sjónina finnst mér komast vel til skila,“ segir Katrín Lilja um persónusköpunina. Bókin gerist á Covid-tímum og talar mikið inn í samtímann til dæmis með Metoo-málum og þráðum sem lesendur kannast við úr nýlegum álitamálum. „Þetta var ekki beint glæpasaga, atburðarásin var of hæg til að kalla þetta glæpasögu. Þetta fjallar meira um Sólveigu og hennar tilfinningarót og upplifun af því að missa sjónina og hafa harm að hefna. Það var ekki nógu vel unnið úr endanum,“ segir Hugrún um bókina. Katrín tekur undir það að endirinn hafi verið svolítið snubbóttur. „Já, maður er skilinn svolítið eftir í lausu lofti.“

Galdurinn í hljóðbókinni

Rebekka Sif hitti Örvar Smárason, tónlistarmann og rithöfund, á Bókasamlaginu og spurði hann út í þetta áhugaverða og töluvert súrrealíska smásagnasafn, Svefngrímuna. „Það sem vakti fyrir mér var að gera eitthvað mjög venjulegt. Ég er að reyna að skrifa um hversdagsleikann í þessari bók en það dregst alltaf einhvern veginn í áttina að einhverju furðulegu. Mér finnst þetta næst því að vera mjög mínimalískur vísindaskáldskapur með kannski smá hrollvekju elementi.“

Smásagnasafnið kemur mjög á óvart og sögurnar eru mjög ólíkar og fjölbreyttar, en það er spurning hvaðan þessar góðu hugmyndir koma. „Ég fæ hugmyndir eins og flestir fá hugmyndir, við uppvask, í sundi eða rétt áður en maður sofnar. En trixið er að ná að skrifa þær niður, það er aðalatriðið.“ Svefngríman kom út sem hljóðbók á svipuðum tíma og hún kom út í prenti, en hljóðbókin vekur sérstaka athygli fyrir töfrandi hljóðheim og metnaðarfullan lestur margra leikara. „Ég hef mikinn áhuga á bæði hljóðbókaforminu og útvarpsleikhúsi. Ég laðast að margradda hljóðbókum og þegar er verið að vinna með hljóðheiminn og tónlist.“ Örvar segir svo að hann hafi fengið einmitt þá leikara sem hann hafði óskað sér og lásu þau sögurnar með prýði. „Mér fannst koma allt annar karakter í persónurnar, mér fannst það svo fallegt og það er svo mikill galdur í því.“

Húmorískt esseyjusafn

Næst var hljóðsesseyjusafnið Við erum bara að reyna að hafa gaman eftir Halldór Armand tekið fyrir.
„Hann er ofboðslegur húmoristi hann Halldór. Hann skrifar skemmtilega pistla, hann skrifar líka þunga pistla og heimspekilega pistla sem fá mann til að hugsa,“ segir Hugrún sem var mjög hrifin af hljóðbókinni. „Margir pistlarnir náðu vel til mín,“ samsinnir Katrín. „Þetta eru misgóðir pistlar, misgrípandi, en fyrir vikið eru þeir fjölbreyttir og höfða þá til fjölbreytts fólks.“ Allar eru þær sammála því að frásagnarmátinn er grípandi og skapandi en Halldór á auðvelt með að tengja saman fyrirbæri sem virðast í fyrstu gjörólík. „Það er gaman hvernig hann tekur hámenningu og lágmenningu og blandar þeim saman en samt meikar þetta sens. Samt er maður sammála honum og sér hvernig hann gat leitt saman gríska goðsögn og KFC,“ segir Katrín Lilja að lokum.

Að lok­um mæla þær stöll­ur með hljóðbók­um sem vert er að hlusta á. Þátta­stjórn er í hönd­um rit­höf­und­ar­ins Re­bekku Sifjar Stef­áns­dótt­ur sem er einnig aðstoðarrit­stjóri www.lestr­ar­klef­inn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert