Heilsuáskorun til sjómanna!

Nettó, Þorbjörn hf, Ásdís Ragna grasalæknir og Óli Baldur einkaþjálfari …
Nettó, Þorbjörn hf, Ásdís Ragna grasalæknir og Óli Baldur einkaþjálfari hafa sett af stað heilsuáskorun til sjómanna í tengslum við Heilsu- og lífstílsdaga í Nettó. Samsett mynd

Í gær hófust Heilsu- og lífsstílsdagar í verslunum Nettó en þá gefst heilsuunnendum kostur á að versla heilsuvörur á afsláttakjörum í öllum verslunum Nettó og einnig í netverslun. Með Heilsu- og lífsstílsdögum vill Nettó mæta kröfum viðskiptavina um heilsusamlegt vöruúrval á góðu verði.

Í kjölfar Heilsu- og lífsstílsdaga Nettó, sem standa yfir dagana 26. janúar - 5. febrúar, spratt upp hugmynd að samstarfsverkefni sem efnt hefur verið til. Verkefnið ber yfirskriftina Heilsuáskorun til sjómanna! og hefur áhöfnin um borð í frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni, sem sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf í Grindavík gerir út, tekið áskoruninni.

„Við hjá Nettó erum ákaflega ánægð að vera samstarfsaðili í þessu skemmtilega heilsueflandi átaki sjómanna,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Nettó. 

Áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða í mánaðarlangan túr …
Áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða í mánaðarlangan túr síðdegis í gær. Ljósmynd/Aðsend

Öðrum útgerðum til eftirbreytni

Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri Þorbjarnar hf, tekur í sama streng og er hæstánægður með verkefnið og þá sem að því standa. „Við lítum svo á að þetta sé verðugt og skemmtilegt samstarfsverkefni. Við höfum mætt mikilli fagmennsku hjá Nettó, Ásdísi Rögnu grasalækni og Óla Baldri einkaþjálfara,“ segir hann.

„Við höfðum verið að skoða að fara í eitthvert svona verkefni með Nettó þegar Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og vinnslustjóri um borð í Tómasi, kom til okkar með þessa hugmynd. Þannig þetta hitti vel á,“ segir Eiríkur Óli um upphaf samstarfsverkefnisins. 

Áhafnarmeðlimir á Tómasi Þorvaldssyni ásamt Ingibjörgu Ástu, markaðsstjóra Nettó og …
Áhafnarmeðlimir á Tómasi Þorvaldssyni ásamt Ingibjörgu Ástu, markaðsstjóra Nettó og Ásdísi Rögnu, grasalækni. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum tilbúin að leggja töluvert á okkur til að stuðla að heilsueflingu og vera öðrum útgerðum og áhöfnum til fyrirmyndar. Við lítum á þetta sem hluta af okkar starfsmannastefnu og viljum gera vel við okkar sjómenn. Það skiptir miklu máli að þeir nærist vel og hugi vel að heilsunni - sjómennskan er hörkuvinna,“ segir Eiríkur og vísar í starfsumhverfi sjómanna sem oft einkennist af óreglulegum vinnutíma, löngum vöktum og erfiðum aðstæðum.

Við höfum trú á að bætt mataræði og líkamsrækt komi til með að hafa jákvæð áhrif á heilsufar okkar manna,“ segir Eiríkur og telur margvíslegan ávinning hljótast af  heilsueflingu. 

Heilsan höfð í fyrirrúmi

Áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða í mánaðarlangan túr síðdegis í gær. Kokkurinn um borð, Vilhjálmur Lárusson, hefur nú þegar sett sig í stellingar og er spenntur fyrir komandi áskorun. Áður en lagt var af stað frá bryggju tók Vilhjálmur kostinn undir handleiðslu Ásdísar Rögnu Einarsdóttur, grasalæknis og meistaranema í lýðheilsuvísindum.

„Þessi kona kann sitt fag,“ segir Vilhjálmur. „Við fórum saman í Nettó og keyptum inn öll hráefni sem þarf fyrir til að setja saman nýjan og heilsusamlegan matseðil. Hún fór yfir þetta allt saman með mér og það var mjög lærdómsríkt,“ útskýrir Vilhjálmur en Ásdís kemur til með að vera áhöfninni innan handar á meðan á áskoruninni stendur. 

Nettó hefur verið leiðandi í að bjóða upp á heilsueflandi …
Nettó hefur verið leiðandi í að bjóða upp á heilsueflandi kosti með fjölbreyttu úrvali af heilsuvörum og hollari lausnum í matvöru. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held við séum allir 26 alveg tilbúnir í þetta og það ríkir mikil spenna fyrir þessu,“ segir Vilhjálmur og telur engan úr áhöfninni hræðast breytt og heilsusamlegra mataræði um borð þó svo að uppistaða þess komi til með að haldast óbreytt sem heimilismatur með hefðbundnu sniði.

„Uppskriftirnar eru allt öðruvísi samt. Þetta verður svolítil breyting - á jákvæðan hátt. Sjómannastéttin er upp til hópa orðin ansi sver,“ segir hann og skellir upp úr.

Eitt skref í einu

Aðspurður um helstu breytingarnar segir Vilhjálmur að fyrst og fremst verði morgunverðurinn og síðdegiskaffið útfært á heilsusamlegri hátt. Ferskt grænmeti og ávextir verði í auknum mæli á boðstólum og ýmsum tegundum af fræjum og hnetum bætt við fæðuna. Þá verði hollari millimál gerð aðgengilegri svo áhafnarmeðlimir gerist síður sekir um að stelast í sjoppuna um borð. 

„Það verður samt ekkert blátt bann við sykri eða sætabrauði,“ segir Vilhjálmur léttur í bragði. „Þetta snýst bara um að taka skrefið, innleiða og velja hollari kostinn. Það er hvatning fólgin í því,“ segir hann og bætir við að áhafnarmeðlimir séu upp til hópa miklir keppnismenn sem skorast sjaldnast undan og setja markið hátt.

„Við förum alltaf alla leið. Það þurfti ekki að segja okkur það tvisvar að fara „all in“ í þetta,“ segir Vilhjálmur og heldur í þá von að fleiri áhafnir finni sig knúnar til að setja heilsuna í forgang í samvinnu við Nettó.

Skömmu áður en skipið fór frá bryggju mættu þær Ingibjörg …
Skömmu áður en skipið fór frá bryggju mættu þær Ingibjörg Ásta og Ásdís um borð til að afhenda áhafnarmeðlimum bætiefnapakka frá Now. Ljósmynd/Aðsend

Gott heilsufar allra hagur

Ingibjörg Ásta segir Nettó hafa verið leiðandi í að bjóða upp á heilsueflandi kosti með fjölbreyttu úrvali af heilsuvörum og hollari lausnum í matvöru. 

„Við höfum um árabil verið leiðandi í samfélagslegri ábyrgð og stutt vel við margþætt íþrótta- og æskulýðsstarf á landsvísu. Það er okkur mikilvæg ánægja að fá að styðja sjómenn áfram í bættum lífsgæðum og hvetjum fleiri áhafnir að horfa til þessa frábæra verkefnis,“ segir hún.

Skömmu áður en áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða mættu þær Ingibjörg Ásta og Ásdís um borð til að afhenda áhafnarmeðlimum ýmis vítamín.

„Hver og einn fékk veglegan bætiefnapakka í samstarfi við NOW sem inniheldur fjölvítamín, Omega fitusýrur og D-vítamín og allir tilbúnir í að takast á við áskorunina,“ segir Ingibjörg og bendir á að í heilsublaði Nettó megi finna fjöldann allan af fróðleik um heilsusamlegan lífsstíl.

Smelltu hér til að lesa Heilsublað Nettó 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert