Skelltu þér á vit nýrra ævintýra á heimaslóðum

Íslendingar ferðast í mun meiri mæli um landið nú en …
Íslendingar ferðast í mun meiri mæli um landið nú en áður að sögn Heiðu Meldal, ferðafulltrúa Fí, og Tómasar Guðbjartssonar, fararstjóra. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag sem á sér langa sögu en félagið var stofnað árið 1927. Frá stofnun hafa gildi félagsins haldist óbreytt og snúið að því að stuðla að ferðalögum um Ísland og auka við áhuga og heilbrigði fólks með aukinni útivist og hreyfingu í góðum félagsskap. Í dag eru um tíu þúsund félagsmenn skráðir í félagið og hafa þeir aldrei verið fleiri. 

„Það er alltaf pláss fyrir nýja félagsmenn hjá FÍ,“ segja þau Heiða Meldal, ferðafulltrúi hjá Ferðafélagi Íslands og Tómas Guðbjartsson, fararstjóri og formaður ferðanefndar. Þau segja mikinn áhuga vera á meðal fólks á skipulögðum ferðum félagsins og að félagsmönnum hafi farið fjölgandi síðustu ár.

„Við fórum að ferðast meira um landið okkar í heimsfaraldrinum og þannig hefur aukinn áhugi landsmanna kviknað á ferðalögum og útiveru hér á landi. Þetta hefur opnað augu okkar fyrir nýjum ævintýrum á okkar heimaslóðum,“ segir Heiða.

Mikil þátttaka er í Ferðafélagi barnanna en alls eru 23 …
Mikil þátttaka er í Ferðafélagi barnanna en alls eru 23 skipulagðar ferðir í ár á vegum félagsins. Ljósmyndari/Ferðafélag Íslands

Ferðaáætlun 2023 lítur dagsins ljós

Nýverið gaf Ferðafélag Íslands út ferðaáætlun fyrir árið 2023. Þar gefur að líta veglegan bækling á stafrænu formi þar sem fram koma ítarlegar upplýsingar um allar skipulagðar ferðir sem eru á dagskrá félagins út árið. Ferðirnar eru jafnmisjafnar og þær eru margar og taka mið af árstíðum.

„Margar af okkar ferðum seljast upp á mjög skömmum tíma,“ segir Heiða og bendir á að ferðir um Hornstrandir, Laugaveg, Lónsöræfi og Víknaslóðir séu sérlega vinsælar en ekki síður ferðir um sögulegar slóðir. 

„Það er mikil ásókn í þessar ferðir og hefur Ferðafélag barnanna verið gífurlega vinsælt undanfarin ár. Við erum þá að fara í langar og skemmtilegar ferðir með börnin, til dæmis eins á Laugaveginn, og börnin standa sig svo vel. Við förum algerlega á hraða og forsendum barnanna en oftast eru það foreldrarnir sem eru farnir að puða svolítið á meðan börnin blása varla úr nös,“ segir hún og hlær. 

Börn og foreldrar leggja saman upp í ferðir sem gjarnan …
Börn og foreldrar leggja saman upp í ferðir sem gjarnan taka langan tíma og reyna á en samveran er ómetanleg. Ljósmyndari/Ferðafélag Íslands

Eitthvað fyrir alla 

Heiða segir alls 23 ferðir skipulagðar á vegum Ferðafélags barnanna og að síðasta áratuginn hafi þær verið ákaflega vel sóttar. „Fróðleikur í fararnesti er samstarfsverkefni Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands. Í heildina eru 23 ferðir farnar á vegum Ferðafélags barnanna og er meiri hluti þeirra ókeypis en lengri ferðir kosta,“ útskýrir Heiða og telur verkefnið vera ákveðna uppeldisstöð sem kunni að stuðla að áhuga barna á útiveru og hreyfingu til frambúðar.

„Það er mjög gaman að ala upp nýja ferðagarpa. Svo er farið í leiki á kvöldin og haldnar sögustundir,“ bætir Tómas við.

„Það er eitthvað í boði fyrir alla hjá FÍ. Við erum með dagsferðir á dagskrá, helgarferðir og svo lengri ferðir sem geta tekið fimm til sjö daga að fara,“ bendir Tómas á. „Það er mjög ánægjulegt hversu vel það hefur gengið að bóka í ferðir og sumar uppseldar nú þegar en það er fullt af ferðum enn í boði sem vert er fyrir áhugasama að skoða, eins og ferðir sem eru með sagnfræðiívafi og örgönguferðir - svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann og hvetur áhugasama að kynna sér ferðaáætlun félagsins. 

Gönguferðir um Hornstrandir hafa verið gríðarlega vinsælar síðustu ár.
Gönguferðir um Hornstrandir hafa verið gríðarlega vinsælar síðustu ár. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Síðustu ár hefur einnig mikil aðsókn verið í ferðir fyrir eldri borgara á vegum félagsins. Heiða og Tómas taka þeirri þátttöku fagnandi enda sé tilgangurinn sá að standa vörð um lýðheilsu allra landsmanna.

„Það er markmið félagsins. Við viljum hvetja alla landsmenn til að fara út að hreyfa sig í fallegri náttúru og taka þátt í þeim verkefnum sem við höfum upp á að bjóða,“ segir Heiða.

Tómas tekur í sama streng og segir að félagið nálgist ferðir heldri borgara á skemmtilegan hátt. „Oft er farið í söguferðir þar sem staðir sem komu fram í sögufrægum bókum eru heimsóttir og settur er skemmtilegur bragur á þær ferðir.“

Fljótlega verður farið í fjallaskíðaferðir um helstu fjallatindi Austfjarða.
Fljótlega verður farið í fjallaskíðaferðir um helstu fjallatindi Austfjarða. Ljósmynd/Ferðafélag Íslands

Borgar sig að vera skráður í félagið

Heiða og Tómas segja mikinn ávinning hljótast af því að gerast meðlimur í félaginu. Árgjaldið er 8500 krónur í ár og er það gjald oftar en ekki mun lægra en það sem ferðirnar sjálfar kosta og afslátturinn því í hærra formi en árgjaldið sjálft.

„Það er mun ódýrara fyrir áhugasama að gerast félagar. Ferðirnar verða mun ódýrari. Félagsaðild veitir líka maka og börnum afslátt af ferðum ásamt fríðindum í margvíslegu formi. Til dæmis afsláttum í allar ferðir og á gistingu í skálum vegum félagsins,“ segir Tómas. „Það er margt að fara af stað núna hjá okkur með vorinu.“

Skipulagðar fjallahjólaferðir hafa líka verið að sækja í sig veðrið …
Skipulagðar fjallahjólaferðir hafa líka verið að sækja í sig veðrið síðustu ár og eru eftirsóttar. Ljósmyndari/Ferðafélag Íslands

Ferðafélagið rekur 41 gistiskála hringinn í kringum landið en einnig er farið í tjaldferðir um fjalllendi. 

„Það þarf að vera vel búinn og mjög mikilvægt að vera í góðu gönguformi til að geta borið allar sínar vistir á bakinu á meðan á göngunni stendur,“ segir Heiða en veðurskilyrði geta breyst hratt og búnaður ferðalanga þarf að taka mið af því. 

„Vor- og vetrarferðirnar eru í fullum gangi núna. Eftir páska förum við í skíðaferðir um alla helstu tindi sem Austfirðir hafa upp á að bjóða,“ segir Tómas en þær ferðir kalla á færni og þekkingu þátttakenda. 

„Við bjóðum upp á ýmiss konar námskeið. Bæði fyrir byrjendur sem vilja öðlast nýja vídd og kynnast fjallaskíðamennsku betur og fyrir lengra komna. Það verður sett á koppinn mjög fljótlega,“ segir Tómas og kveður að félagið hafi þurft að fresta nokkrum námskeiðum undanfarin misseri vegna veðurs og snjóleysis í fjöllunum.

„Fjallaskíði hafa slegið í gegn síðasta áratuginn. Hvort sem fólk hefur áhuga á fjallahjólum, fjallaskíðum eða fjallgöngum þá hlökkum við bara til að sjá sem flesta á fjöllum í ár,“ segir Tómas glaðhlakkanlegur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert