Hvað á ég að gera við sparnaðinn minn?

Spurningin „hvað á ég að gera við sparnaðinn minn?“ er mörgum hugleikin um þessar mundir. Sumir velta því fyrir sér hvort það sé betra að leggja sparnaðinn inn á sparnaðarreikning í banka eða jafnvel greiða hann inn á húsnæðislánið. Það eru í raun margir valmöguleikar sem hér verða skoðaðir betur.

Í mynd­skeiðinu hér að ofan kafar Tinna Björk Bryde, fjármálasnillingur hjá Aur­björgu, djúpt ofan í málið og gefur þér ráð sem eiga eftir að koma að gagni um ókomna tíð.

Ýmsir valkostir sparnaðarreikninga

„Í dag ætla ég að skoða mismunandi sparnaðarreikninga en á samanburðarsíðu Aurbjargar er að finna 42 mismunandi reikninga frá ýmsum bönkum. Með svona mörgum valmöguleikum getur verið flókið að finna þann rétta sem veitir þér bestu ávöxtunina,“ segir Tinna og fer yfir mismunandi reikninga og hvað skilgreinir þá hvor frá öðrum sem í stuttu máli er svona:

Óbundnir reikningar veita þér ótakmarkaðan aðgang að sparnaðinum þínum hvenær sem þú þarft á því að halda.

Bundnir reikningar eru andstæðan við óbundna reikninga en þeir eru lokaðir til skemmri eða lengri tíma sem gæti gefið þér betri ávöxtun á sparnaðinn.

Verðtryggðir reikningar eru þeir sparnaðarreikningar sem verja sparnaðinn þinn gagnvart verðbólgu.

Hvaða sparnaðarreikningur hentar best?

Samkvæmt Tinnu er misjafnt hvaða leiðir henta hverjum og einum, eftir því hverju er leitast eftir eðli málsins samkvæmt. Það er því mikilvægt að kynna sér valmöguleikana og spegla væntingar sínar til sparnaðar í þeim.

„Óbundnir reikningar gera þér kleift að leggja inn og taka út peninginn þinn hvenær sem þú vilt. Þeir bjóða venjulega aðeins lægri vexti samanborið við reikninga með fastan bindingartíma. Hins vegar bjóða margir bankar nú góða vexti á óbundnum reikningum sem minnkar bilið á milli valkostanna hvort sem þú bindur fjárhæðina eða ekki,“ segir Tinna um muninn á milli bundinna og óbundinna reikninga.

„Bundnir reikningar virka þannig að upphæðin sem þú leggur inn á reikninginn er bundin, eða föst til skemmri eða lengri tíma,“ útskýrir hún en þeir reikningar sem bundnir eru til skemmri tíma hafa binditíma frá tíu dögum og upp í mánuð og vextir hækka jafnt og þétt miðað við upphæðina á reikningnum.

„Á mannamáli þýðir þetta að ef reikningur er með tíu daga binditíma, þá biður þú um úttekt og tíu dögum seinna færðu peningana til þín.“

Fyrir þá sem vilja stöðugleika og aukinn fyrirsjáanleika segir Tinna að bundinn reikningur til lengri tíma geti verið góður kostur.

„Reikningar með lengri binditíma bjóða upp á mismunandi vexti. Margir af þessum reikningum virka þannig að þú leggur inn ákveðna fjárhæð á reikninginn og bæði upphæðin og vextirnir haldast fastir út tímabilið,“ segir Tinna og bendir á að þar með verði reikningurinn ekki fyrir neinum áhrifum hvort sem vextir hækki eða lækki.

„Ávöxtunin er því fyrirsjáanleg sem getur verið gott fyrir einstaklinga sem leita eftir áreiðanlegum fjárfestingarkosti.“

Verðbólga hefur víðtæk áhrif

Verðbólga er hugtak sem við heyrum oft á dag. Stundum veitum við því meiri athygli en við kærum okkur um og nú erum við á þeim stað. Ef þú vilt verja sparnaðinn þinn gegn verðbólgu þá gæti verðtryggður reikningur verið lausnin miðað við útskýringar Tinnu.

„Þetta er í raun eini reikningurinn í dag sem tryggir verðgildi á sparnaðinum þínum til lengri tíma,“ segir hún og tekur dæmi:

„Ef þú leggur inn ákveðna fjárhæð í dag og tekur út ári síðar þá getur þú keypt lítra af bensíni eftir ár eins og þú getur í dag,“ segir Tinna um verðtryggða sparnaðarreikninga og hvetur áhugasama til að kynna sér kosti þeirra miðað við stöðuna í dag.

Seðlabanki Íslands var með reglur um þessa reikninga um að þeir þyrftu að vera bundnir í að lágmarki þrjú ár en það hefur hins vegar breyst og nú er ekki gerð krafa um binditíma.

„Þegar þetta er tekið upp hefur einn banki auglýst að þeir muni bjóða upp á verðtryggðan reikning sem er bundinn í 90 daga eftir að þú óskar eftir úttekt. Upplýsingar um binditíma reikninga er hægt að sjá með einföldum hætti á samanburðarsíðu Aurbjargar.

Greiðslur inn á húsnæðislán

„Margir velta því fyrir sér hvort það sé hagstætt og spari okkur pening að leggja sparnaðinn inn á húsnæðislánið. Hvaða áhrif hefur það?“ spyr Tinna og tekur dæmi um 35 milljóna króna húsnæðislán til 25 ára.

„Segjum að þú eigir eina milljón sem þú hefur lagt inn á höfuðstólinn. Ef við skoðum verðtryggt lán á meðal vöxtum sem eru í boði í dag gætir þú sparað 3,4 milljónir króna í vaxtagreiðslur yfir lánstímann. Á óverðtryggðu láni sem er á meðalvöxtum myndi vaxtarsparnaðurinn nema 418 þúsund krónum yfir lánstímann,“ segir Tinna.

Þú getur sparað þér vaxtagreiðslur með því að nýta sparnaðinn inn á húsnæðislánið en hins vegar er jafn mikilvægt að halda varasjóði til að mæta óvæntum útgjöldum.

Aur­björg aðstoðar þig við að taka skyn­sam­legri ákv­arðanir í fjár­mál­um og öðlast skýr­ari yf­ir­sýn á fjármálum heimilisins. Það sem hentar öðrum hentar þér ekki endilega jafn vel. Það er því mikilvægt að skoða allar hliðar og íhuga besta kostinn út frá sjálfum sér og aðstæðum.

Smelltu hér til að sjá fleiri myndbönd frá Aurbjörgu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert