Hafa þrek og þor í verkefnin

INNLENT  | 20. október | 9:16 
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins segir að kosningarnar í haust muni meðal annars snúast um að leysa húsnæðisvandann, einkum hjá ungu fólki sem komist ekki út úr foreldrahúsum eða af leigumarkaði vegna þess að það eigi ekki fyrir útborguninni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að kosningarnar í haust muni meðal annars snúast um að leysa húsnæðisvandann, einkum hjá ungu fólki sem komist ekki út úr foreldrahúsum eða af leigumarkaði vegna þess að það eigi ekki fyrir útborguninni.  

„Við ætlum að svissneskri fyrirmynd að heimila þeim að nýta lífeyrissparnaðinn sem fyrstu greiðslu, og færa þannig lífeyrissparnaðinn í annað sparnaðarform. Þegar þau síðan selja íbúðina fer hann aftur inn í lífeyriskerfið,“ segir Sigurður Ingi, en rætt er ítarlega við hann í Morgunblaðinu í dag. 

 

 

Húsnæðisvandinn snúi þó ekki bara að ungu fólki. „Við viljum líka leysa vanda afa okkar og ömmu, fólksins sem situr heima hjá sér, kvíðið yfir því að komast ekki inn á hjúkrunarrými eða jafnvel í þjónustuíbúðir. Við viljum því byggja 300 íbúðir á ári í samstarfi við lífeyrissjóðina, sem myndu fjármagna það með 10 milljörðum á ári,“ segir Sigurður Ingi. 

„Við eigum líka að setja okkur það markmið að veikir eiga ekki að borga í heilbrigðiskerfinu,“ segir Sigurður Ingi. Framsóknarmenn vilji því lækka greiðsluþátttöku fólks eins og barna, eins og aldraðra, eins og öryrkja, eins og langveikra, og ekki síst þeirra sem glíma við erfið veikindi, sem eigi ekki að hafa áhyggjur af því að þeir hafi ekki efni á að borga lækninum eða lyfin sín. „Við hljótum öll að geta verið sammála um það.“

Þættir