Ákall eftir breyttum vinnubrögðum

INNLENT  | 23. október | 11:36 
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir kosningarnar um helgina snúast einkum um tvennt: annars vegar að hér verði hafin uppbygging samfélagslegra innviða og hins vegar um breytta stjórnarhætti þar sem horft verði til lengri tíma og reynt að skapa sem víðtækasta sátt um stefnu framtíðar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir kosningarnar um helgina snúast einkum um tvennt: annars vegar að hér verði hafin uppbygging samfélagslegra innviða og hins vegar um breytta stjórnarhætti þar sem horft verði til lengri tíma og reynt að skapa sem víðtækasta sátt um stefnu framtíðar.

Katrín segir að uppbygging samfélagslegra innviða snúist um að sú efnahagslega hagsæld sem hér hefur verið skili sér til fólksins í landinu. „Að við ráðumst í raunverulega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Að við förum í að bæta kjör aldraðra og öryrkja þannig að þau séu mannsæmandi, að við ráðumst í úrbætur á húsnæðismarkaði þannig að unga fólkið geti komið sér þaki yfir höfuðið, að við förum í það verkefni að bæta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis og við mótum okkar stefnu til framtíðar um það hvernig við ætlum að nýta orkuna okkar,“ segir Katrín, en hún vill segja skilið við stóriðjustefnuna og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi. 

 

Katrín segir hins vegar líka skipta máli að þetta sé gert í breiðri samstöðu. „Og því snúast þessar kosningar líka um breytta forystu fyrir Ísland, öðruvísi stjórnmál þar sem við leggjum meira á okkur um að skapa samstöðu um það hvert eigi að stefna, ekki bara á Alþingi Íslendinga, heldur líka við alla aðila samfélagsins, þannig að við getum horft til lengri tíma. Því um það snúast kosningarnar, framtíðina, pólitískan stöðugleika til framtíðar og betra Ísland,“ segir Katrín Jakobsdóttir, en rætt er ítarlega við hana í Morgunblaðinu í dag. 

Þættir