Ný hlutverk hjá menningarstofnunum

FÓLKIÐ  | 2. apríl | 14:49 
Menningarstofnanir víðsvegar um landið hafa þurft að laga sig að breyttum aðstæðum á síðustu vikum. Í Reykjanesbæ er metnaðarfullri tónleikadagskrá nú streymt heim í stofu til fólks í hverri viku. Í síðustu viku var það Ásgeir sem lék fyrir fólk en í kvöld eiga Moses Hightower sviðið.

Menningarstofnanir víðsvegar um landið hafa þurft að laga sig að breyttum aðstæðum á síðustu vikum. Í Reykjanesbæ er metnaðarfullri tónleikadagskrá nú streymt heim í stofu til fólks í hverri viku. Í síðustu viku var það Ásgeir sem lék fyrir fólk en í kvöld eiga Moses Hightower sviðið. 

„Þetta heppnaðist alveg gríðarlega vel. Það voru 2.500 manns sem horfðu á sama tíma á streymið. En yfir heildina þá voru um 24 þúsund manns sem komu inn,“ segir Þórdís Ósk Helgadóttir, forstöðumaður í Súlunni sem er eitt af menningarhúsunum í Reykjanesbæ. Á næstu vikum verður svo boðið upp á tónleika með GDRN og Hjálmum.

„Við vildum halda áfram að miðla menningu til fólks og þá kom upp þessi hugmynd hjá menningarstofnun bæjarins að fara í aðra tegund af miðlun,“ segir Þórdís en fleira en tónleikar er í boði hjá stofnunum bæjarins. Bókasafnið hefur til að mynda verið í mikilli streymisþjónustu þar sem verið er að kynna rafbækur, taka viðtöl við listfræðinga og fleira í þeim dúr. Síðasta föstudag var svo Popppunktur með Dr. Gunna í beinni útsendingu sem fólk gat tekið þátt í.

Í myndskeiðinu er rætt við Þórdísi og þá má sjá brot af tónleikum Ásgeirs frá því í síðustu viku.

Hægt er að streyma tónleikum Moses Hightower sem hefjast klukkan átta í kvöld í gegnum facebooksíðu Hljómahallar. Yfirlit yfir þá fjölmörgu viðburði sem eru í samkomubanninu í Reykjanesbæ má finna hér

Þættir