Hollenska skipið dregið að landi

200  | 8. apríl | 6:58 
Björgunaraðgerðir vegna hollenska flutningaskipsins Eemslift Hendrika, sem fékk á sig slagsíðu í ósjó úti fyrir Ålesund í Noregi annan í páskum, stóðu í allan gærdag og í nótt og bárust þau tíðindi frá norsku landhelgisgæslunni um miðnætti í gærkvöldi að norskum tíma að aðgerðirnar gengju þokkalega.

Björgunaraðgerðir vegna hollenska flutningaskipsins Eemslift Hendrika, sem fékk á sig slagsíðu í ósjó úti fyrir Ålesund í Noregi annan í páskum, stóðu í allan gærdag og í nótt og bárust þau tíðindi frá norsku landhelgisgæslunni um miðnætti í gærkvöldi að norskum tíma að aðgerðirnar gengju þokkalega.

Fyrr í gær hafði taugum verið komið á skipið og var þá tekið til við að draga það inn til Ålesund, með allri varkárni þó, þar sem enn er mikil slagsíða á skipinu sem fékk sjó ofan í lest og tók að hallast á stjórnborða eftir að farmur færðist til á þilfarinu í sjógangi.

Um borð í skipinu eru alls 400 tonn af olíu og er olíuhreinsunarteymi í Ålesund í viðbragðsstöðu verði skipið fyrir einhverju því hnjaski sem geti orðið til þess að olía leki í sjóinn.

Frétt af mbl.is

Meðal farms Eemslift Hendrika var þjónustubáturinn AQS Tor sem er á leið til fyrirtækisins AQS í Þrándheimi en það festi nýverið kaup á bátnum fyrir 66 milljónir norskra króna, jafnvirði tæplega milljarðs íslenskra króna. Það sem líklega varð til þess að Hendrika lagðist ekki alveg á hliðina var að AQS Tor féll frá borði í fyrradag en lenti á réttum kili í sjónum og er nú einnig í togi á leið í land.

„Við þökkum fyrir að það er gott í sjóinn núna,“ sagði Einar Vik Arset, forstöðumaður norsku landhelgisgæslunnar, í samtali við ríkisútvarpið NRK í gærkvöldi.

Óttast strand

Eins og mbl.is greindi frá á mánudaginn var flogið með tólf manna áhöfn skipsins í land með björgunarþyrlum, fyrst átta manns og svo þá fjóra sem eftir voru sem hugðust freista þess að koma farminum í skorður en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Arset landhelgisgæslustjóri sagði í gærkvöldi að áhöfn dráttarbátsins tæki eina mínútu í einu, hætta væri á Hendrika strandaði er nær drægi landi og náttmyrkrið bætti ekki úr skák.

Nils Roar Hareide, framkvæmdastjóri Runde miljøsenter, umhverfisrannsóknarstöðvar á eyjunni Runde á Suðurmæri, óttast alvarlegt umhverfisslys strandi Hendrika eða verði fyrir öðru hnjaski.

 

 

„Rekist skipið í hafsbotninn og olían um borð lekur út yrði það mesta umhverfisslys sem orðið hefur við norskar strendur,“ sagði Hareide við NRK í gærkvöldi og rifjar upp strand málmflutningaskipsins Arisan skammt fra Runde aðfaranótt 12. janúar 1992. Skipið lá á strandstað í tvo mánuði þar til það brotnaði í tvennt 15. mars og sökk þangað niður sem það liggur enn á 30 metra dýpi, frístundaköfurum að leik, en þeir stunda mjög köfun niður að flakinu. Lak úr því töluverð olía á sínum tíma en mikið af henni barst frá landi og á haf út sem var mesta mildi.

Vonast er til að björgunaraðgerðinni vegna Eemslift Hendrika ljúki í dag eða í síðasta lagi á morgun.

NRK

VG

Dagbladet

Teknisk Ukeblad

Þættir