Gagnaflutningsgeta Breiðbandsins tífaldast

Síminn-Breiðband gerði í dag samstarfssamning við bandaríska hátæknifyrirtækið Narad Networks um tilraunaverkefni sem felur í sér umtalsverða aukningu á gagnaflutningsgetu Breiðbandsins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Flutningsgeta á Breiðbandi tífaldast og við það margfaldast möguleikar Breiðbandsins. Ekki þarf lengur að leggja ljósleiðara úr götuskáp og inn í hús.

Nýlega kom í ljós að hægt er að auka notkun á hefðbundnum sjónvarpsstrengjum. Með því að nýta sér tæknina frá Narad þarf Síminn ekki að leggja ljósleiðara úr götuskáp og inn í húsin heldur eru lagnir frá götuskáp sem eru til staðar nýttar auk þeirra lagna sem eru á heimilum. „Samningurinn felur í sér að Narad leggur til búnað og aðstoð við tilraunina og Síminn leggur til vinnu og aðlögun að íslenskum aðstæðum. Gildistími samningsins er tveir mánuðir en tilraunin hefst í júní. Að henni lokinni verður metið hvort hægt verði að bjóða þessa þjónustu," segir í fréttatilkynningu Símans. „Í fyrstu verða gerðar tilraunir með 100 megabita á sekúndu, tengingar í báðar áttir, en í framtíðinni verður búist við 1000 megabitum á sekúndu tengingum og er það stóraukinn hraði miðað við það sem nú þekkist á markaðnum. Til viðmiðunar má nefna að langalgengasti hraði í ADSL fyrir heimili er 0,25 megabitar á sekúndu, og mesta flutningsgeta ADSL er 8 megabitar á sekúndu. Með þeirri aðferð sem Narad býður má búast við því að möguleikar Breiðbandsins til að mæta öllum fyrirsjáanlegum þörfum heimila á fjarskipta- og afþreyingarþjónustu verði tryggðir til framtíðar. Í dag hefur helmingur heimila í höfuðborginni aðgang að Breiðbandi Símans og á Múlasvæðinu hafa viðskiptavinir Breiðbandsins aðgang að Netinu um Breiðband. Uppbyggingu á Netinu um Breiðband á höfuðborgarsvæðinu verður lokið á næstu 12 mánuðum. Í næsta mánuði er gert ráð fyrir að Breiðholtið hafi aðgang að Netinu um Breiðband. Aukinn hraði auðveldar viðskiptavinum til muna að sækja efni af Netinu. Auk flutningsgetunnar mun þessi nýja tækni verða til þess að notkunarvenjur fólks á Netinu gerbreytast og efnið sem sótt er kemur samstundis. Tæknin opnar gríðarlega mikla möguleika á nýrri þjónustu eins og til dæmis alvöru myndveitu, það er fólk getur pantað myndir og annað efni af netinu. Auk þess verður DVD leiga sem virkar jafnt fyrir bíómyndir og leikjatölvur, t.d. Playstastion 2 auðveldari. Myndirnar og leikirnir eru sóttir yfir kerfið á örskammri stundu. Síðast en ekki síst færist gagnvirkt sjónvarp nær þegar gagnahraðinn er orðinn svona mikill og er þá rétt handan við hornið ef tilraunirnar heppnast vel," segir einnig í tilkynningunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert