Vara við einelti á spjallþræði með íslenskum tölvuleik

Eigendur vefjarins leikjaland.is vilja vara við einelti og fullorðnum mönnum sem reyna að fá ung börn til þess gefa upp msn-aðgangsorð sín á opnu spjallsvæði íslensks teiknileiks, Skissu", sem vísað er inn á af vefnum leikjaland.is.

Að sögn Ingvars Þórs Gylfasonar, annars eiganda leikjalands, hafa þeir sett upp viðvörun á forsíðu Leikjalands vegna þessa og íhuga að taka út tengingu á Skissu.

Að sögn Ingvars Þórs keppast notendur Skissu um að teikna og giska á hvað teikningarnar eru og fá stig fyrir. Leiknum er skipt upp í flokka þar sem má nefna: dýr, íslenska, tónlist og 6-8 ára.

Segja aðstandendur Leikjalands að þeim hafi borist athugasemdir foreldra sem hafa áhyggjur af því orðbragði og einelti sem á sér stundum stað á opnu spjalli leiksins sem ætlað er fyrir notendur á aldrinum 6-8 ára.

„Það gerist varla einfaldara en að gerast notandi og spila Skissu og býður leikurinn því miður uppá svona misbeitingu sem við höfum fengið athugasemdir um."

Annað og mun alvarlegra mál sem tengist þessum leik er að fullorðnir menn eru að stofna sér notendaaðgang að leiknum og bera sig síðan að börnunum með fyrirspurnum um notendanafn barna á msn svo eitthvað sé nefnt, segja aðstandendur Leikjalands.

Vefur Leikjalands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert