Þorskar sendir í þungunarpróf

Þorskar sendir í þungunarpróf
Þorskar sendir í þungunarpróf mbl.is/Finnur Pétursson

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) er í samvinnu við samstarfsaðila sína að hanna búnað sem gerir fyrirtækjum í fiskeldi mögulegt að segja til um hvort þorskur verði kynþroska og hrygnir að vori. Búnaðurinn er hluti af verkefni sem felst í því að rannsaka hvernig hægt er að koma í veg fyrir kynþroska hjá þorski í eldi.

Í fréttatilkynningu kemur fram að mikilvægi þessa felst einkum í því að þegar þorskur í eldi verður kynþroska þá lengist eldistími til muna. Búnaðurinn getur því einfaldað umsjón með eldisfiski og stuðlað að hagræðingu í þorskeldi, að því er segir í tilkynningu.

Búnaðurinn, sem er í raun nokkurs konar þungunarpróf, getur greint með verulegri nákvæmni minnstu breytingar í kynhormónum fisksins. Helstu kostir þungunarprófsins eru þeir að fyrirtæki í fiskeldi geta fylgst náið með þróun fiska í ákveðnum eldiseiningum. Þá er hægt að nota prófið til þess að flokka fisk eftir kyni en slíkt getur verið mikilvægt m.a. í kynbótastarfi, að því er segir í tilkynningu.

Er búnaðurinn hluti af Evrópuverkefninu Codlight-Tech, samstarfsverkefni Matís, Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, Háafells á Ísafirði og VAKA-DNG á Íslandi, Háskólanum í Stirling og Johnsons Seafarms í Skotlandi og á Hjaltlandseyjum, Hafrannsóknastofnuninni í Bergen og Fjord Marin í Noregi ásamt Landbúnaðarháskólanum í Uppsala í Svíþjóð.

„Verkefnið sem stýrt er af vísindamönnum hjá Matís ohf., felst í því að rannsaka hvaða leiðir eru færar til þess að tryggja að eldisfiskur nái sláturstærð á sem skemmstum tíma. Í verkefninu er notuð sérhönnuð ljós fyrir sjókvíeldi sem koma í veg fyrir að þorskurinn upplifi skammdegið, en þegar sumri fer að halla og sól lækkar á lofti fer þorskurinn að þroska með sér kynkirtla. Hann verður svo kynþroska að vori og hrygnir frá febrúar til maí," samkvæmt tilkynningu

„Eldisþorskur verður yfirleitt kynþroska tveimur til fjórum árum fyrr en villtur þorskur þar sem eldisþorskur vex hraðar vegna aðgengis að fóðri og betri lífsskilyrða almennt. Hins vegar hefur kynþroski eldisþorsks hamlandi áhrif á vöxt og eldistími lengist því til muna. Kynþroskinn veldur stöðnun í vöðvavexti því fiskurinn notar alla orku í að þroska kynkirtla,” segir Dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri hjá Matís.

„Þess vegna er óléttuprófsbúnaðurinn mikilvægur til þess að segja til um breytingar í kynhormónum fisks og auðveldara skipulagningu á eldi fram í tímann,” segir Þorleifur í tilkynningu.

Þorleifur Ágústsson
Þorleifur Ágústsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert