Íslenskar konur þyngri en þær dönsku

Offita hefur verið að aukast í Evrópu á undanförnum árum.
Offita hefur verið að aukast í Evrópu á undanförnum árum. Reuters

Hreyfingarleysi og rangt mataræði eru áhrifavaldar í sex af sjö helstu áhættuþáttum slæmrar heilsu í Evrópu. Ofþyngd og offita hefur aukist mjög hratt síðustu tvo áratugi og er talið að í meirihluta ríkja ESB sé yfir helmingur íbúa yfir kjörþyngd, að því er kemur fram á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.

Í grein á fréttavef Politiken kemur fram að ítalskar og austurrískar konur eru léttari en kynsystur þeirra í Evrópu. Danskar konur sitja í þriðja sæti, en 9,1% þeirra eru of þungar samkvæmt lista Eurostat yfir ofþyngd kvenna í Evrópu. Til samanburðar eru 23% breskra kvenna of þungar, sem er það hæsta sem gerist innan Evrópusambandsins.

40% íslenskra kvenna yfir kjörþyngd

Íslenskar konur væru í áttunda sæti á listanum samkvæmt símakönnun Lýðheilsustöðvar frá árinu 2001, en þar kemur fram að 12,3% íslenskra kvenna þjást af offitu, eða eru með yfir BMI stuðul yfir 30 kg/m². Taka verður tillit til að í símakönnun, þar sem ekki fer fram eiginleg mæling, er hætta á vanmati, þ.e. að fólk segist léttara heldur en það er í raun og veru.

Þá kemur fram í könnuninni að 40% íslenskra kvenna eru yfir kjörþyngd (BMI yfir 25 kg/m²). Hlutfall íslenskra karla sem þjást af offitu er svipað og hjá konum en hlutfall karla yfir kjörþyngd er töluvert hærra eða 57%.

Hjólin grenna danskar konur

Í Danmörku þakka menn hjólamenningunni góða heilsu kvenna. Á eftir Hollendingum hjóla Danir mest allra Evrópubúa. Þá hefur það áhrif, samkvæmt formanni dönsku hjólareiðasamtakanna, að ef fjölskylda á aðeins einn bíl hjólar konan oftar en karlinn.

Borgarbúar hjóla oftar en aðrir í Danmörku. 60% íbúa Kaupmannahafnar nota hjól frekar heldur en bíl og það sama gildir um íbúa Árósa og Óðinsvéa.

Listi Eurostat yfir hlutfall offeitra kvenna frá 15 ára aldri í nokkrum ríkjum ESB:

Ítalía: 7,9%

Austurríki: 8,6%

Danmörk: 9,1%

Frakkland: 9,2%

Svíþjóð: 9,6%

Holland: 9,9%

Grikkland: 10,8%

Belgía: 11,8%

Pólland: 12,4%

Spánn: 13,5%

Finnland: 14,5%

Portúgal 15,9%

Ungverjaland: 18,1%

Þýskaland: 21,7%

Bretland: 23,0%

Hjólamenning Kaupmannahafnar heldur íbúum hennar í formi.
Hjólamenning Kaupmannahafnar heldur íbúum hennar í formi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert