Stundaglasavöxtur til marks um gáfur

Nigella Lawson.
Nigella Lawson.

Ný rannsókn, sem birt verður síðar í vikunni, bendir til þess að konur með „stundaglasavöxt" séu búi yfir meiri gáfum en aðrar konur og þær eignist einnig gáfaðri börn. Ástæðan sé sú, að í mjöðmum kvenna séu omega-3 fitusýrur, sem næra heila bæði móður og barns meðan á meðgöngu stendur. Fita á kvið inniheldur hins vegar omega-6 fitusýrur, sem hafa engin áhrif á þroska heilans.

Breska blaðið Daily Telegraph segir frá þessu og vitnar til vísindamanna hjá háskólunum í Santa Barbara og Pittsburgh, sem gerðu rannsóknina. Hefur blaðið eftir Steven Gaulin, hjá Santa Barbara háskóla, að lögulegar mjaðmir og læri innihaldi nauðsynleg næringarefni sem næri heilann og geti haft áhrif á gáfnafar barna.

Blaðið nefnir tvær þekktar breskar konur, sjónvarpskokkinn Nigellu Lawson og leikkonuna Rachel Weisz, sem virðist staðfesta þessa kenningu. Lawson hafi lokið námi í háskólanum í Oxford áður en hún hóf að elda í sjónvarpi og Weisz hafi lokið enskunámi í Cambridge áður en hún hélt á vit frægðar og frama í Hollywood. Báðar séu þessar konur með klassískan stundaglasavöxt.

Þá segir blaðið, að vísindarannsóknir hafi lengi bent til þess, að karlmenn laðist að konum sem hafi þennan vöxt. Margir vísindamenn hafi talið, að ástæðan væri eðlilslæg og karlmenn telji ósjálfrátt að slíkar konur verði langlífari og eigi auðveldara með að eignast börn.

Vísindamennirnir lögðu próf fyrir 16 þúsund konur og stúlkur og komust að þeirri niðurstöðu, að konur sem eru með stórar mjaðmir í hlutfalli við mittismál fengu að jafnaði hærri einkunn á prófinu.

Þá benda rannsóknirnar til þess, að börn sem unglingsstúlkur eignast, standa sig ver á gáfnaprófum en önnur börn og er það rakið til þess, að mæður þeirra höfðu ekki nægilega mikið af omega-3 fitusýrum í mjöðmunum þegar þær gengu með börnin.

Grein Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert