Ráðstefna um byltingu í rafmagnssamgöngum

Hér gefur að líta hugmyndabílinn Nissan Denki Cube sem gengur …
Hér gefur að líta hugmyndabílinn Nissan Denki Cube sem gengur fyrir rafmagni. Reuters

Stærstu bílaframleiðendur heims, helstu orkufyrirtæki Norðurlanda og leiðandi alþjóðleg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar í rafvæðingu samgangna koma saman í Reykjavík 18. og 19. september næstkomandi til að ræða komandi byltingu í rafmagnssamgöngum á næstu fimm árum.
 
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er verndari ráðstefnunnar Driving Sustainability, alþjóðlegs vettvangs fyrir orkulausnir í samgöngum og mun opna hana klukkan 09:05 að morgni fimmtudagsins 18. september.
 
Fram kemur í tilkynningu að hátt settir stjórnendur bílaframleiðendanna Toyota, Ford, og Mitsubishi munu á ráðstefnunni veita innsýn í tæknilausnir sem miða að sjálfbærum samgöngum og munu standa neytendum til boða frá næsta og þarnæsta ári.

Stærstu orkufyrirtæki Norðurlanda, Vattenfall í Svíþjóð og Dong Energy í Danmörku, vinna nú hörðum höndum að innleiðingu rafmagns í samgöngum, og munu þau skýra ráðstefnugestum frá áætlunum sínum. Hækkandi olíuverð, hröð þróun í rafhlöðum og hátækni leiðir þessa byltingu.

Margskonar rafmagnsfarartæki verða til sýnis og reynsluaksturs á ráðstefnunni. Þar má nefna rafmagnsbíla, -mótorhjól, -vespur, -reiðhjól og ýmis önnur óhefðbundin rafmagnsfarartæki.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina