Fitan yngir upp

Það eru ekki margar hrukkur á andlitum þessara föngulegu kvenna.
Það eru ekki margar hrukkur á andlitum þessara föngulegu kvenna. Reuters

Fólk yfir fertugt ætti ekki að hræðast aukakílóin of mikið. Bandarískir vísindamenn hafa nefnilega fundið það út að spikið lætur fólk líta út fyrir að vera yngra en ella. 

Norski vísindavefurinn Forskning.no greinir frá rannsókn sem gerð var við Case Western Reserve University í Cleveland í Bandaríkjunum. Þar leiddi lýtalæknirinn Bahamna Guyuron, sem er sérfræðingur í andlitsaðgerðum, umfangsmikla rannsókn á tvíburum. 

Niðurstöðurnar benda til þess að hugsanlega megi þurrka út hrukkurnar með því að bæta á sig einum eða tveimur kílóum.

Guyuron rannsakaði ljósmyndir af 186 pörum af eineggja tvíburum. Þar sem genasamsetning eineggja tvíbura er eins á munurinn á að vera hægt að rekja muninn á þeim til ólíkra lífshátta og umhverfis. Guyuron og menn hans fengu tvíburana til að fylla út spurningalista um hvernig þeir höfðu lifað þar sem m.a. kom fram hversu oft þeir höfðu gift sig, hversu oft þeir notuðu sólarvörn þegar þeir fara í sólbað o.s.frv. Þar fyrir utan reyndu vísindamennirnir að átta sig á aldri hvers tvíbura fyrir sig út frá myndum af þeim.

Það sem var mest sláandi í niðurstöðunum var hversu miklu máli þyngd viðkomandi skipti máli fyrir útlit þeirra. Margir tvíburanna reyndust vera álíka þungir og litu þá út fyrir að vera svipað gamlir. Um leið og munurinn á líkamsþyngdarstuðli (BMI) tvíburanna var yfir fjögur stig hafði það afgerandi áhrif á áætlaðan aldur þeirra.

Væru tvíburarnir yngri en fertugir leit sá þeirra sem var þyngri út fyrir að vera eldri. En væru þeir yfir fertugt snérist þetta við. Þá leit tvíburinn sem hafði hærri líkamsþyngdarstuðul út fyrir að vera yngri.

Útskýringin er sennilega sú að aukakílóin fylla upp í hrukkurnar í andliti feitari tvíburans sem þar með lítur út fyrir að vera yngri en hinn.

Þó er það ekki bara líkamsvöxturinn sem hefur áhrif á það hversu gömul við lítum út fyrir að vera. Heilbrigður lífsstíll er einnig mikilvægur, samkvæmt rannsókninni. Reykingar og sólböð án sólarvarnar hafa neikvæð áhrif og hið sama gildir um skilnaði sem að meðaltali bætir tæpum tveimur árum við áætlaðan aldur viðkomandi. Hins vegar vakti athygli að það skipti litlu máli fyrir áætlaðan aldur hvort viðkomandi var einhleypur eður ei.
 
Þeir þátttakendur sem höfðu skilið litu hins vegar út fyrir að vera áberandi eldri en þeir sem höfðu alltaf verið einhleypir, sem bendir til þess að það er heppilegra fyrir útlitið að vera einhleypur en í vondu og niðurdrepandi sambandi.

Vísindamennirnir benda sjálfir á þann veikleika í rannsókninni að þeir mátu aldurinn eingöngu út frá andlitum viðkomandi. Hefðu þeir séð allan líkamann má ætla að þeim hefði fundist grönn manneska líta út fyrir að vera yngri en feit.

mbl.is

Bloggað um fréttina