Golfstraumurinn ekki að hægja á sér

Hollywood hefur leikið sér með hugmyndir um endalok golfstraumsins.
Hollywood hefur leikið sér með hugmyndir um endalok golfstraumsins.

Golfstraumurinn er ekkert að hægja á sér ef marka má bandaríska vísindamenn sem hafa notast við gervihnetti til að vakta breytingar á hæð sjávar. Rannsóknin staðfesti það sem aðrir vísindamenn hafa fundið út, að mikill óstöðugleiki hefur verð á straumnum til skamms tíma í senn, en engin langtímaþróun virðist þó eiga sér stað.

Sú kenning hefur verið sett fram að loftslagsbreytingar muni verða til þess að hægja verulega á golfstraumnum, sem hefur verið forsenda hins milda loftslags í norðvestur Evrópu á Íslandi. Niðurstöður nýju rannsóknarinnar, sem ekki styðja þessa kenningu, eru birtar í fagtímaritinu Geophysical Research Letters, en frá þeim er einnig sagt á vef BBC.

Vísindamennirnir segja að á tímabilinu frá 2002 til 2009 hafi engar sérstakar breytingar verið merkjanlegar á golfstraumnum, aðeins töluverður breytileiki til skamms tíma í senn. Gögn gervihnattarins ná aftur til ársins 1993 og gefa til kynna örlitla aukningu í straumnum, en vísindamennirnir telja hana vart marktæka.

„Þær breytingar sem við höfum greint í styrk straumsins eru sennilega hluti af náttúrulega ferli," segir Josh Willis frá JPL rannsóknarstöð Nasa í Kaliforníu. Árið 2005 þóttu rannsóknir  breskra vísindamanna benda til þess að vatnsmagnið í straumnum hefði dregist saman um allt að 30% á hálfri öld. Síðar komust sömu vísindamenn hinsvegar að því að styrkur straumsins væri mjög breytilegur frá einni árstíð til þeirrar næstu, en reglulegt munstur hefur ekki fundist.

Rannsóknarteymin beggja vegna Atlantshafsins munu halda rannsóknunum áfram til að öðlast dýpri skilning á hugsanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Dramatísk áhrif endaloka golfstraumsins hafa m.a. verið stílfærð í Hollywood-hamfaramyndinni The Day after Tomorrow, þar sem bæði flóðbylgja og skyndileg ísöld ganga yfir New York borg.  Rannsóknir vísindamannanna bresku og bandarísku benda til þess að ekki þurfi að óttast slíkar hamfarir í allra nánustu framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina