Mjólk og krabbi í blöðruhálskirtli

Karlar sem þömbuðu mjólk á unglingsárum virtust frekar frá blöðruhálskirtilskrabbamein …
Karlar sem þömbuðu mjólk á unglingsárum virtust frekar frá blöðruhálskirtilskrabbamein en hinir sem drukku mjólkina sparlega. Reuters

Íslenskir karlar sem neyttu mikillar mjólkur milli tektar og tvítugs voru þrefalt líklegri til að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein en hinir sem drukku minna af mjólk á kynþroskaskeiði, samkvæmt íslenskri rannsókn.

Rannsóknir Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur næringarfræðings og doktorsnema hafa víða vakið athygli. Reuter-fréttastofan fjallaði nýlega um rannsókn Jóhönnu. Hún fékk fyrr á þessu ári viðurkenningu velferðarráðuneytisins fyrir framúrskarandi verkefni á sviði lýðheilsu, forvarna og heilsueflingar, eins og greint var frá á vef Háskóla Íslands.

Doktorsverkefni Jóhönnu við HÍ er um krabbamein í blöðruhálskirtli en það er algengasta krabbamein meðal karlmanna í vestrænum ríkjum og hefur lítið verið vitað um orsakir þess.

„Jóhanna notar gögn Hjartaverndar og Krabbameinsskrár til að greina hvort búsetutengdar fæðuvenjur á yngri árum, s.s. mjólkur-, korn- og fiskneysla, hafi áhrif á áhættuna á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli síðar á lífsleiðinni. Fáar rannsóknir eru til um tengsl næringar á fyrri æviskeiðum og áhættu á krabbameini síðar á ævinni.

Í fyrsta hluta doktorsverkefnis Jóhönnu hefur fundist aukin áhætta milli búsetu í sveit snemma á tuttugustu öldinni við langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli. Á þeim tíma voru fæðuvenjur almennt fábreyttar og mjólkurneysla talsvert meiri í sveitum borið saman við búsetu í Reykjavík.

Einnig fannst samband milli tíðrar mjólkurneyslu á unglingsárum við langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli. Eftir því sem best er vitað hefur ekki áður fundist samband milli fæðuvenja snemma á ævinni við áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli seinna á ævinni.

Þörf er á fleiri rannsóknum sem kanna tengsl mataræðis á yngri árum við krabbamein í blöðruhálskirtli en engu að síður geta niðurstöður rannsóknar Jóhönnu opnað nýja möguleika til forvarna.

Samstarfsaðilar Jóhönnu við rannsóknina eru Hjartavernd, Krabbameinsskrá og Harvard School of Public Health,“ sagði í frétt HÍ.

Jóhanna sagði við Reuters að frekari rannsókna væri þörf og lagði hún áherslu á varfærni við túlkun niðurstaðna. Fram kemur í frétt Reuters að notuð hafi verið gögn um meira en 2.200 karla fædda á árunum 1907-1937. Af 463 körlum sem sögðust hafa drukkið mjólk sjaldnar en daglega hafði 1% fengið langt gengið krabbamein sem leiddi til dauða.

Samsvarandi hlutfall var 3% hjá meira en 1.800 körlum sem kváðust hafa drukkið mjólk að minnsta kosti daglega á unglingsárum. Fleiri áhrifaþættir kunna að koma þarna við sögu en mjólkurdrykkjan ein, eins og Jóhanna benti á í samtali við Reuters.

Hún segir ekki hægt að mæla með því að táningspiltar breyti matarvenjum sínum á grundvelli þessara gagna einna. Þarna sé einungis horft á áhættuþætti eins sjúkdóms en taka verði fleira til greina, m.a. beinheilsu.

Dr. Matthew Cooperberg, þvagfæralæknir við Kaliforníuháskóla, tók undir það. Hann sagði of snemmt að segja að mjólkurdrykkja ylli blöðruhálskirtilskrabbameini. Hægt væri að ræða um ákveðin tengsl en það væri erfitt að sanna beina orsök. Þá bætti hann því við að fólk ætti ekki að óttast mjólkurdrykkju og hún hefði margskonar góð heilsufarsleg áhrif á unglingsárum.

Jóhanna Eyrún Torfadóttir doktorsnemi.
Jóhanna Eyrún Torfadóttir doktorsnemi. Ljósmynd/HÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert